Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ólöglegt að ráða sjálfboðaliða til fyrirtækja
Þrjú fyrirtæki í ferðaþjónustu á Suðurnesjum auglýsa nú eftir sjálfboðaliðum á síðunni www.workaway.info.
Föstudagur 4. mars 2016 kl. 09:24

Ólöglegt að ráða sjálfboðaliða til fyrirtækja

Fyrirtæki á Suðurnesjum hafa ráðið til sín sjálfboðaliða á undanförnum árum

Eiganda fyrirtækis brá mjög að heyra að slíkt væri ólöglegt

Á undanförnum árum hefur tíðkast að ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi, þar með talið á Suðurnesjum, ráði til sín erlenda sjálfboðaliða. Slíkt er ólöglegt og er nú í gangi átaksverkefnið Einn réttur - Ekkert svindl á vegum Alþýðusambands Íslands. Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi. Markmiðið er að tryggja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir alla sem hér starfa, þar með talið fyrir útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði.

Tilkynntu fyrirtækjum að sjálfboðastörf væru lögbrot

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lausleg athugun blaðamanns leiddi í ljós að þrjú fyrirtæki í ferðaþjónustu á Suðurnesjum auglýsa nú eftir sjálfboðaliðum á síðunni www.workaway.info. Starfsgreinasamband Íslands hefur sent bréf til allra fyrirtækja hér á landi sem óska eftir sjálfboðaliðum. Í því kemur fram að sjálfboðaliðastörf í efnahagslegum tilgangi séu lögbrot, og skipti þá engu hvort viðkomandi starfi í fjölskyldufyrirtæki, í landbúnaði, ferðaþjónustu eða annars staðar. Að sögn eiganda ferðaþjónustufyrirtækis á Suðurnesjum sem fengið hefur til sín sjálfboðaliða undanfarin ár hafði viðkomandi ekki hugmynd um að slíkt væri ólöglegt. „Mér brá mjög við að heyra að þetta væri brot á lögum og mun því ekki fá til mín sjálfboðaliða aftur.“ Eigandinn sagði sjálfboðaliðana hafa unnið um fimm tíma á dag, fimm daga vikunnar og einnig ferðast töluvert um Ísland. „Þetta var mjög duglegt, ungt fólk, sem sumt hafði ferðast víða um heim og starfað sem sjálfboðaliðar. Þeim fannst gaman að koma til Íslands og vinna sér fyrir fæði og húsnæði og að geta skoðað landið. Að sama skapi fannst okkur mjög gaman að hafa þau hjá okkur og við fræddumst um þeirra menningu. Ég upplifði sjálfboðavinnuna eins og beggja hag. Þau réðu sig af fúsum og frjálsum vilja, meðal annars því þeim fannst Ísland spennandi land.“

Mál koma vikulega til VSFK

Að sögn Kristjáns G. Gunnarssonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, er vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum tiltölulega heilbrigður sé miðað við aðra staði á landinu. Þó komi alltaf upp mál annað slagið. „Nær vikulega koma til okkar mál þar sem fólk fær greitt jafnaðarkaup eða á einhvern annan hátt eru kjarasamningar brotnir. Oft er reynsluleysi vinnuveitenda um að kenna. Það er mín tilfinning að ástandið sé mikið að lagast þegar kemur að hótelum, gistiheimilum og veitingastöðum. Það er einkum hjá bílaleigum sem við  þurfum að beita okkur,“ segir hann.

Kristján segir aukinn kraft verða settan í átakið Einn réttur - Ekkert svindl og verður  starfsmaður ráðinn í samstarfi stéttarfélaganna í því skyni. Hluti af eftirliti eru fyrirvaralausar heimsóknir á vinnustaði þar sem kannað er með vinnustaða skírteini og hvort allir starfsmenn séu skráðir hér á landi, greiði skatta og önnur gjöld. Í hópnum verða aðilar frá verkalýðshreyfingunni, Vinnumálastofnun, skattinum, lögreglunni og Samtökum atvinnulífsins.