Olli umferðaróhappi og stakk af
Ökumaður sem olli umferðaróhappi á Reykjanesbraut í vikunni er grunaður um fíkniefnaakstur. Hann var á leið til Keflavíkur þegar hann mætti annarri bifreið skammt frá Hafnarfirði og ók utan í hana svo af varð talsvert tjón.
Ökumaðurinn skeytti því engu en hélt áfram ferð sinni, lögreglumenn á Suðurnesjum höfðu upp á honum á Vatnsleysustrandarvegi þar sem hann var handtekinn ásamt farþega sem var með honum í bifreiðinni og voru þeir fluttir á lögreglustöð.
Þá ók ökumaður á steypt grindverk í Keflavík eftir að gangandi vegfarandi hafði hlaupið óvænt yfir götuna og ökumaðurinn sveigt frá til að forða slysi.
Fleiri umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni og nokkurt tjón á ökutækjum en engin alvarleg meiðsl á fólki.
Einnig voru fáeinir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og skráningarmerki fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar.