Olíudreifing tekur við olíustöðinni í Helguvík
Olíudreifing ehf. og Varnarmálastofnun Íslands undirrituðu í dag samkomulag um afnot Olíudreifingar af olíustöðinni í Helguvík. Samningurinn er stærsti samningur sem Olíudreifing hefur undirritað, þ.m.t. vegna skipakaupa, til þessa en með samningnum fær Olíudreifing afnot olíustöðvarinnar í Helguvík ásamt dælukerfi til Keflavíkurflugvallar til næstu 30 ára.
Samningurinn er afurð verkefnis sem utanríkisráðuneytið fól Ríkiskaupum að auglýsa á evrópska efnahagssvæðinu. Tilboði Olíudreifingar í verkið var tekið og Varnarmálastofnun var falið að semja um framkvæmd þess við Olíudreifingu.
Meginmarkmið verkefnisins og þar með samningsins er að tryggja samkeppni við eldsneytissölu á Keflavíkurflugvelli sem og að bjóða flutning eldsneytis til Keflavíkurflugvallar án þess að olíubílar séu notaðir til flutnings flugvélaeldsneytis frá Reykjavík.
Framundan er mikil fjárfesting Olíudreifingar á svæðinu. Þá þarf að ráðast umtalsverð viðhaldsverkefni. Margir af olíutönkunum í Helguvík hafa ekki verið í notkun til nokkurra ára og þá þarf að hreinsa. Það verk er þegar hafið.
Þegar olíustöðin í Helguvík verður komin í gagnið að nýju má búast við því að umferð olíubíla um Reykjanesbraut verði hverfandi lítil og í raun aðeins þegar flytja þarf þotueldsneyti til Reykjavíkurflugvallar.
Mynd: Það voru þau Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar Íslands og Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri Olíudreifingar sem undrrituðu samninginn í olíustöðinni í Helguvík í dag. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson