Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ólíklegt að kvika hlaupi yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar
Þriðjudagur 21. maí 2024 kl. 13:33

Ólíklegt að kvika hlaupi yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar

Um 200 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn um Hvítasunnuhelgina, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga, segir í samantekt Veðurstofu Íslands

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Graph_inflation_mogi_is_21052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Þær örlitlu breytingar sem sjást á línuritinu er innan skekkjumarka og eitthvað sem hefur sést áður á kvikusöfnunarferlinu.

Áfram mestar líkur á að kvika komi upp á Sundhnúksgígaröðinni

Í fréttum fyrir helgi var talað um smáskjálftavirkni sem hafi verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum vestan við Grindavík. Í fréttinni var nefnt að mögulega væru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti hugsanlega nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti talin afar ólíkleg sviðsmynd. Það mat er byggt á nýjum líkanreikningum og öðrum gögnum sem voru rædd á fundi vísindamanna nú í morgun. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Áfram eru yfirgnæfandi líkur á að endurtekning verði á því að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu við Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Fylgst vel með hvort að kvika sé á ferðinni

Veðurstofan hefur fylgst með þrýstingsbreytingum í borholum HS orku í tengslum við vöktun á virkninni í Svartsengi. Skyndileg þrýstingsbreyting hefur verið einn af fyrirvörum um að kvika sé að hlaupa úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Í morgun mældist minniháttar þrýstilækkun í borholu HS orku. Engin skjálftavirkni eða breyting í aflögun sást samfara þessum þrýstingsbreytingum sem mældust. Því virkjaði Veðurstofan ekki viðbragðsáætlanir vegna mögulegs kvikuhlaups.