Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar
Horft til fjalla með Ísólfsskála í forgrunni. Mynd: hilmarbragi
Föstudagur 12. mars 2021 kl. 18:31

Ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, KAUST háskóla, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins.
  • Kvikugangurinn heldur áfram að stækka, en nokkur óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Síðustu daga hafa gögn bent til þess að kvikugangurinn hafi verið að færast í átt að suðurströndinni, en nýjustu mælingar benda ekki til að gangurinn hafi færst að ráði síðasta sólarhringinn.

  • Farið var yfir mögulega gasmengun ef kemur til goss. Þar væri t.d. um að ræða brennisteinsdíoxíð (SO2). Umhverfisstofnun fór yfir þau mælitæki sem komið hefur verið fyrir til að fylgjast með mögulegri gasmengun.

  • Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.
  • Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs, að meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka, þá þarf að gera ráð fyrir því að gosið geti á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand varir lengur aukast líkur á gosi.

Nánar um niðurstöðu fundarins:

Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins. Mikil skjálftavirkni hefur verið á því svæði frá miðnætti og klukkan 7.43 í morgun mældist skjálfti á svæðinu sem var 5.0 að stærð.

Úrvinnsla á GPS mælingum sýnir að kvikugangurinn heldur áfram að stækka, en nokkur óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Síðustu daga hafa gögn bent til þess að kvikugangurinn sé að færast í átt að suðurströndinni. Nýjustu mælingar sýna að gangurinn hefur ekki færst að ráði síðasta sólarhringinn.

Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.

Farið var yfir mögulega gasmengun ef kemur til goss. Þar væri t.d. um að ræða brennisteinsdíoxíð (SO2). Umhverfisstofnun fór yfir þau mælitæki sem komið hefur verið fyrir til að fylgjast með mögulegri gasmengun. Áður en þessar hræringar hófust var aðeins ein mælistöð á Reykjanesskaga sem mældi SO2 en það var stöð HS Orku í Grindavík. Umhverfisstofnun hefur sett upp tvo mæla til viðbótar, einn í Vogum og annan í Njarðvík og unnið er að því að fjölga enn frekar mælum í Reykjanesbæ til að fylgjast með styrk SO2.

Veðurstofan hefur sett upp dreifilíkan sem spáir fyrir um dreifingu gasmengunar út frá veðurspá hverju sinni. Með mælingum og dreifilíkaninu er hægt að meta áhrif mengunar af völdum mögulegs goss á íbúa á svæðinu og senda í framhaldinu út tilkynningar með skilaboðum um viðeigandi viðbrögð.