Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ólíklegt að gerð verði undantekning fyrir Íslendinga
Fimmtudagur 27. október 2005 kl. 19:41

Ólíklegt að gerð verði undantekning fyrir Íslendinga

Það þarf ekki að vera slæmt fyrir Íslendinga að þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna hafi verið falið að leiða varnarmálin á Íslandi til lykta. Þó er ólíklegt að gerð verði undantekning fyrir Íslendinga og ekki dregið saman í varnarviðbúnaði hér á landi, að sögn sérfræðings í öryggismálum. Stöð 2 greinir frá í kvöld.

Fréttastofan greindi frá því í gær að þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, Steven Hadley, hafi tekið að sér að leiða varnarmál á Íslandi til lykta. Hingað til hefur bandaríska utanríkisráðuneytið farið með málið og spornað gegn því að haukarnir í varnarmálaráðuneytinu fái sínu framgengt, sem er að Keflavíkurstöðinni verði lokað.

Bandaríska sendiráðið hér á Íslandi segir reyndar að ekkert hafi breyst, og aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, segir það sama. Fréttastofa Stöðvar 2 stendur við frétt sína frá því í gær um að Hadley hafi verið falið að leiða málið til lykta. Þetta byggir á heimildum frá bandaríska utanríkisráðuneytinu sem fréttastofan telur traustar.

Ein virtasta rannsóknarstofnunin á sviði stríðs, friðar og öryggismála er Stockholm peace research institute. Forstöðumaður hennar, Alyson Bailes, er einn fremsti öryggis- og varnarmálasérfræðingur heims. Hún segir að hafa verði í huga að eitt hlutverk þjóðaröryggisráðsins sé að sætta sjónarmið mismunandi ráðuneyta. Þetta þurfi þannig ekki að vera slæmt fyrir íslensk stjórnvöld.

Alyson segir að enn séu mörg sjónarmið sem beri að taka mið af og þegarbandaríska varnarliðið hafi myndað sér stefnu og hún samþykkt af Bandaríkjaforseta, þá verði ekki mikið svigrúm fyrir breytingar eða frekari eftirmála. Alyson segir það mjög ólíklegt að einhverjar undantekningar verði gerðar fyrir Íslendinga en ef svo verði þá verði ekki um miklar undantekningar að ræða, segir í frétt Stöðvar 2.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024