Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ólíðandi og ófyrirgefanleg framkoma skipverjanna - starfa ekki lengur hjá Saltveri
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 kl. 16:09

Ólíðandi og ófyrirgefanleg framkoma skipverjanna - starfa ekki lengur hjá Saltveri


Yfirlýsing hefur borist frá útgerðarfélaginu Saltveri ehf. vegna dóms yfir fjórum skipverjum á Erlingi KE sem er í eigu fyrirtækisins þar sem fram kemur að eigendur og starfsfólk útgerðarfélagsins séu harmi slegnir yfir þeirri kynferðislegu áreitni sem 13 ára gamall drengur varð fyrir um borð í skipi félagsins sumarið 2010 og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um leið og fyrirtækið heyrði málavöxtu var gripið til viðeigandi ráðstafana. Enginn hinna dæmdu er lengur í starfi hjá útgerðinni enda hátterni þeirra með öllu ólíðandi og ófyrirgefanlegt.

Samúð okkar er með fórnarlambinu og fjölskyldu hans.

Fyrir hönd Saltvers ehf.

Guðmundur J. Guðmundsson útgerðarstjóri.


Héraðsdómur Reykjaness dæmdi  á mánudag fjóra skipverja á Erlingi KE úr Keflavík í skilorðsbundið fangelsi fyrir að beita 13 ára dreng kynferðislegri áreitni og níðast á honum með ýmsum hætti í tíu daga veiðiferð með skipinu.

Einn skipverjinn var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi, einn í 2 mánaða og tveir í 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Skipverjarnir játuðu sök að hluta en sögðu að þetta hafi verið „svona væg busun“.
Faðir drengsins var skipverji á skipinu og varð vitni að sumu sem sonur hans lenti í um borð. Í dómnum er haft eftir honum að honum hefði hann hafa brugðist syni sínum með því að grípa ekki í taumana fyrr. Hann hefði verið á sjó í 25 ár og aldrei upplifað annað eins. Faðirinn hefði hins vegar verið hræddur um að það kæmi niður á vinnu hans um borð ef hann myndi aðhafast eitthvað.
Í dómnum er greint frá nokkrum tilvikum þar sem drengurinn er sagður hafa orðið mjög hræddur, m.a. þegar honum hafi verið haldið á hvolfi út fyrir borðstokk skipsins. Fyrir dómi sagði sálfræðingurinn, að drengnum hafi liðið mjög illa og þessir atburðir hafi haft mikil áhrif á hann. Drengurinn væri mjög alvörugefinn og ábyrgðarfullur miðað við aldur og hafi ríka réttlætiskennd.
Í dómnum yfir skipverjunum sem kveðinn var upp á mánudaginn, er haft eftir móðurinni að hún hafi orðið „viti sínu fjær“ af reiði þegar hún frétti af meðferðinni á honum.

Hún hafi sótt drenginn, þegar skipið var í landi, og ekið honum heim. Þar hafi hann brotnað niður.