Ólafur Þór vill leiða nýtt framboð í Garði og Sandgerði
Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis, segist í færslu á fésbókinni tilbúinn til þess að leiða nýjan framboðslista um félagshyggju og lýðræði í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis.
„Það eru spennandi tímar framundan hjá Sandgerðingum og Garðmönnum og það verður í mörg horn að líta á komandi árum. Ég er reiðubúinn til að taka sæti á nýjum framboðslista í nýju sveitarfélagi og er tilbúinn til þess að leiða hann í komandi kosningum.
Ég hef það lánsamur að leiða bæjarstjórn Sandgerðisbæjar síðustu átta árin, á tíma sem hefur verið krefjandi, stundum erfiður en líka ánægjulegur því við höfum séð árangur af vinnunni. Ég hef reynt að láta skynsemi og samtal ráða ferðinni og ég tel að þannig pólitík sé líklegust til að skila árangri fyrir nýtt sveitarfélag. Með það að leiðarljósi gef ég kost á mér til starfa á komandi kjörtímabili um leið og ég vona að reynsla mín og þekking geti orðið að gagni í nýrri bæjarstjórn,“ segir Ólafur Þór í færslunni.
Hann hvetur fólk sem hefur áhuga á því að koma með í þetta skemmtilega ferðalag að gefa kost á sér til starfa.