Ólafur Örn aftur á leið í bæjarstjórastól Grindavíkur?
Þeirri spurningu er nú velt upp hvort Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, sé aftur á leiðinni í bæjarstjórastólinn í Grindavík. Hann var bæjarstjóri í Grindavík þar til í júlí í fyrra að þáverandi meirihluti sprakk með látum. Ólafi var þá sagt upp störfum en þá kom í ljós umdeildur starfslokasamningur við Ólaf Örn sem hljóðaði upp á það að hann yrði á biðlaunum þar til í nóvember 2010 eða út þetta kjörtímabil og sex mánuðum betur. Þá þurfti bæjarstjóður Grindavíkur einnig að kaupa einbýlishús Ólafs Arnar í Grindavík nú í vetur, þar sem kveðið var á um það í samningi við bæjarstjórann að ef húsið seldist ekki á fasteignamarkaði innan ákveðins tíma leysti bæjarfélagið húseignina til sín.
Nú bendir allt til þess að stofnað verði til meirihlutasamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Grindavík eftir að samstarfi Samfylkingar og Framsóknarflokks hefur verið formlega slitið. Víkurfréttir greindu frá því fyrstar fjölmiðla fyrir páska að meirihlutasamstarfið væri sprungið en það var skólastjórastaða við nýjan grunnskóla í Grindavík sem virðist hafa verið púðurtunnan sem sprakk.
Það liggur því beinast við hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum að kalla Ólaf Örn aftur til starfa, enda maðurinn á launum hjá bæjarfélaginu. Þá er einbýlishús bæjarstjórans fyrrverandi í ennþá í eigu bæjarfélagsins.
Í júlí í fyrra var það reiknað út að kostnaður við bæjarstjóraskiptin þá væri um 20 milljónir króna. Þá voru laun fyrrverandi bæjarstjóra kr.1.282.381 kr. á mánuði en Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sitjandi bæjarstjóri, samþykkti að þiggja 20% lægri laun á mánuði. Eflaust verður það eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta í Grindavík að víkja henni frá störfum og verða þá tveir bæjarstjórar á biðlaunum næstu 6 mánuðina í Grindavík. Aðeins er eitt ár eftir af kjörtímabili bæjarstjórnar en sveitarstjórnarkosningar eru í landinu að ári.
Efri myndin: Ólafur Örn í stól bæjarstjóra Grindavíkur.
Neðri myndin: Húsnæði Grindavíkurbæjar við Glæsivelli í Grindavík sem var áður einbýlishús bæjarstjóra Grindavíkur. Bærinn eignaðist húsið sl. vetur eftir að Ólafi Erni hafði ekki tekist að selja það á fasteignamarkaði.