Ökuskóli SG vísar gagnrýni á bug
-Nemendur Ökuskóla SG hafa beðið mánuðum saman eftir ökutímum til meiraprófs. Þrátt fyrir að hafa greitt námið að fullu í byrjun ökukennslunnar hafa nemendur, sem höfðu samband við Víkurfréttir, beðið síðan í mars eftir ökutímum. Egill Sigurðsson, ökukennari hjá Ökuskóla SG, segir að allir þeir nemendur sem skráðu sig á námskeiðið í mars hafi verið látnir vita af töfunum sem yrðu vegna annríkis. „Þetta eru væntanlega illir nemendur sem eru að elta okkur svona og kæra okkur.“
Víkurfréttir fjölluðu um Ökuskóla SG nú á dögunum vegna þess að ökukennsla á þeirra vegum fór fram á vörubifreið með óskoðuðum tengivagni. Í kjölfar þeirra fréttar höfðu nokkrir samband við Víkurfréttir og gagnrýndu Ökuskóla SG vegna þess að þeir hafi ekki getað sinnt ökutímum hjá nemendum vegna annríkis. Nemendurnir segjast ekki sáttir við vinnubrögð ökuskólans og hafi vegna þessa orðið af mikilli vinnu.
Nemandinn, sem ekki vildi koma fram undir nafni, sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hafi skráð sig á námskeið til meiraprófs hjá ökuskólanum og lokið því námi í mars. Eftir það hafi hann aðeins fengið einn ökutíma og hefur hann nú beðið í þrjá mánuði eftir fleiri ökutímum svo hann geti klárað meiraprófið. Annar nemandi sem hafði samband við Víkurfréttir hafði engan ökutíma fengið eftir námskeiðið í mars.
Óvenjulegt ástand
Egill Sigurðsson, ökukennari hjá Ökuskóla SG, sagði í samtali við Víkurfréttir að hver einasti sem hringt hafi í þá og borið sig illa og sagst vera að missa vinnu hafi verið aðstoðaður eins og skot. „Það eru þeir sem þegja þunnu hljóði og láta ekkert í sér heyra sem verða útundan,“ sagði Egill og bætti því við að það væri óhjákvæmilegt.
„Þetta er mjög óvenjulegt ástand í dag því það urðu breytingar á náminu 1. apríl sem gerði það að verkum að meiraprófið varð miklu dýrara og erfiðara en áður. Við töldum okkur vera að gera mönnum greiða með því að hleypa öllum þeim inn í skólann sem vildu fyrir þessar breytingar,“ sagði Egill.
Ökuskóli SG fór af stað með fjögur námskeið fyrir breytingarnar 1. apríl og á þau voru skráðir 150 manns en námskeiðin voru haldin í Keflavík, Akranesi, Ísafirði og í Reykjavík. „Það er ég og faðir minn sem eru þeir einu í verklegu kennslunni og það segir sig sjálft að kenna öllu þessu fólki er margra mánaða vinna og þeim var gert grein fyrir því,“ sagði Egill.
„Okkur sárnar ofboðslega“
Egill segir þá feðga hafa sett Suðurnesin í forgang og segir þá hafa sinnt kennslu hér í rúmar 6 vikur og látið staði eins og Akranes sitja á hakanum á meðan. „Við erum búnir að vera á fullu frá morgni til kvölds og erum að gera allt sem við getum en við bara ráðum ekki við meira og það áttu menn að vita,“ sagði Egill.
„Okkur sárnar alveg ofboðslega svona aðför því við erum allir af vilja gerðir til að þóknast mönnum eins og við mögulega getum. Það má ásaka okkur um það að hafa tekið of mikið að okkur en það gerðu bara allir skóla á þessum tíma og það er ekkert verri staða hjá okkur en öðrum,“ segir Egill.
Hann er sannfærður um það að 90% nemenda sem stundað hafa nám við ökuskólann hafi gengið mjög sáttir frá borði. „Það bera okkur allir vel söguna og ég vísa þessari gagnrýni til föðurhúsanna því við höfum virkilega vandað okkur og ég er ekki í neinum vafa um það að yfirgnæfandi meirihluti nemenda er sammála.“
Egill vill taka það fram að allir sem fóru á námskeiðið í mars munu klára; „Það er alveg öruggt.“