Ókunnugir hælisleitendur verða einangraðir
Unnið er að því að koma upp sérstakri aðstöðu til að hýsa þá hælisleitendur sem ekki geta gert grein fyrir sér við komuna til landsins og eru skilríkjalausir. Þeir yrðu þá ekki frjálsir ferða sinna eins og nú er. Eru þessar ráðstafanir í takt við það sem gert er í öðrum löndum.
Málið kom til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Ólafur Thordersen (A) vakti máls á því að hann hefði orðið var við vissar áhyggjur íbúa vegna hælisleitenda í ljósi þeirra frétta að hér í bæjarfélaginu hefði dvalið einn slíkur sem síðan reyndist vera eftirlýstur morðingi frá Grikklandi.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, upplýsti að hjá Útlendingastofnun og Dómsmálaráðuneyti væri unnið að því að koma upp sérstakri aðstöðu til að hýsa þá hælisleitendur sem ekki gætu gert grein fyrir sér.
Samkvæmt samningi við ríkið hýsir Reykjanesbær þá hælisleitendur sem hingað koma.
VF-mynd/HBB: Frá húsleit lögreglunnar hjá hælisleitendum í síðustu viku.