Ökuníð táninga endaði með alvarlegu slysi
Ungir ökumenn voru uppvísir að ökuníði víðsvegar um Reykjanesbæ síðdegis sem endaði með alvarlegu slysi. Einn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann undirgengst nú rannskóknir.
Tilkynnt var um bílveltu á Stapabraut í Innri Njarðvík rétt rúmlega sex nú síðdegis. Þar hafði bifreið, svartur smábíll, oltið eftir glæfralegan akstur. Á vettvangi var einnig annar smábíll, rauður að lit. Sést hafði til sömu bíla í kappakstri á iðnaðarsvæðinu við Helguvík um hálftíma áður en veltan varð á Stapabraut, í hinum enda bæjarins. Ljósmyndari Víkurfrétta náði mynd af kappakstrinum við Helguvík, þar sem bílunum var ekið á miklum hraða við slæmar aðstæður. Eins og sjá má á myndinni gekk él yfir þegar kappaksturinn átti sér stað og þarna skammt frá voru björgunarsveitarmenn að fergja þak sem var að fjúka í sterkum vindi.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum liggur ekki fyrir á þessari stundu hversu alvarlegir áverkar sá hlaut sem fluttur var á sjúkrahús til Reykjavíkur. Hann mun þó ekki vera í lífshættu.
Ökumennirnir sem áttu þarna í hlut eru 17 og 18 ára gamlir.
----
Á efri myndinni má sjá bifreiðina sem valt eftir glæfralegan akstur á Stapabraut í Innri Njarðvík.
Á neðri myndunum er annars vegar ljósmynd sem Víkurfréttir náðu af kappakstri á iðnaðarsvæðinu í Helgivík og hins vegar önnur mynd frá slysstaðnum í Innri Njarðvík.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson