Ökumaður með kannabis í krukku
Lögreglan á Suðurnesjum kærði fimmtíu ökumenn fyrir of hraðan akstur um helgina. Langflest brotin áttu sér stað á Reykjanesbraut. Einn þessara ökumanna reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Sá sem hraðast ók mældist á 155 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Þá voru örfáir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur. Í bifreið eins þeirra fannst kannabis í krukku og tæki og tól til kannabisneyslu. Annar var með handtökuskipun á sér og fer mál hans í hefðbundinn farveg.
Loks voru skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem ýmist voru óskráðar eða ótryggðar.