Ökumaður með allt í skralli
Ýmsu var ábótavant hjá ökumanni sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni. Bifreiðin sem hann ók var stöðvuð, þar sem ljósabúnaður tengivagns aftan í henni var engan veginn í lagi. Þá viðurkenndi ökumaðurinn að hafa neytt amfetamíns, þegar lögreglumenn ræddu við hann. Það staðfestu svo sýnatökur á lögreglustöð. Loks var bifreiðin sem hann ók ótryggð og voru skráningarnúmer hennar því fjarlægð.
Þá voru þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Allir óku þeir eftir Reykjanesbraut og sá sem hraðast ók mældist á 130 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.