Ökumaður látinn eftir umferðarslys
Ökumaður bifreiðar sem lenti í árekstri við Grindavíkurafleggjara á Reykjanesbraut lést á sjúkrahúsi í dag. Tveir bílar rákust saman klukkan rúmlega 7 í morgun og voru ökumennirnir báðir fluttir á Landspítala – Háskólasjúkrahús, en ökumaður hinnar bifreiðarinnar var ekki alvarlega slasaður. Á heimasíðu Lögreglunnar í Keflavík kemur fram að annarri fólksbifreiðinni hafi verið ekið vestur Reykjanesbraut en skammt frá Grindavíkurvegi hafi ökumaðurinn misst stjórn á bifreiðinni. Bifreiðin lenti utan í ljósastaur, þaðan yfir umferðareyju sem aðskilur akreinarnar, kastaðist í loft upp og lenti ofan á toppi bifreiðar sem var nýkomin inn á Reykjanesbraut til austur af Grindavíkurvegi. Beita þurfti klippum á aðra bifreiðina til að ná ökumanninum út. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús alvarlega slasaður og lést hann þar nokkru síðar. Alls hafa fimm manns látist í umferðarslysum á Reykjanesbraut í fjórum slysum það sem af er árinu.