Ökumaður í vímu ók á rútu
Ökumaður fólksbifreiðar og farþegi í henni sluppu með skrekkinn þegar henni var ekið inn í framanverða hliðina á rútu á Reykjanesbraut í vikunni. Ökumaðurinn hugðist aka fram úr rútunni en ók þess í stað á hana. Við það snérist bifreiðin í hálfhring og hafnaði á vegriði. Ökumaður og farþegi sluppu ómeiddir en þeir játuðu báðir neyslu fíkniefna.
Sex manns voru í rútunni auk ökumanns og sluppu allir án meiðsla.
Þá voru fáeinir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og einn ók sviptur ökuréttindum. Var þetta í annað sinn sem lögregla hafði afskipti af hinum síðastnefnda vegna aksturs án réttinda.