Ökumaður bifhjóls féll í götuna við árekstur
Ökumaður bifhjóls féll í götuna eftir að ekið hafði verið í veg fyrir farartæki hans. Atvikið átti sér stað í vikunni í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Bifreið hafði verið ekið úr stæði og í veg fyrir hjólið sem hafnaði á henni með ofangreindum afleiðingum. Ökumaður bifhjólsins fann fyrir eymslum og var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Dráttarbifreið fjarlægði hjólið af vettvangi.
Þá misstu ökumenn tveggja bifreiða sem voru á ferð í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni stjórn á ökutækjum sínum með þeim afleiðingum að bæði höfnuðu utan vegar. Annað óhappið varð á Reykjanesbraut og var miklu vatni í hjólförum kennt um. Um hundrað metrar voru frá hjólförum bifreiðarinnar þar sem hún fór út af veginum og þar til að hún staðnæmdist. Engin slys urðu á fólki í þessum tveimur óhöppum.