„Okkur þykir öllum vænt um bæinn okkar“
„Ég upplifði mikinn létti og var eiginlega eins og sprungin blaðra,“ segir Kolbrún Jóna Pétursdóttir, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar í Reykjanesbæ, um viðbrögð sín við þeim fréttum í gær að lífeyrissjóðir meðal kröfuhafa vildu semja um niðurfellingu skulda. Tíðindin bárust klukkan 16:54 en fundur bæjarstjórnar hófst klukkan 17:00 og átti þar að ræða tillögu bæjarráðs um að óska eftir því við innanríkisráðuneyti að fjárhaldsstjórn taki við fjármálum Reykjanesbæjar. „Við í meirihlutanum, ásamt bæjarstjóra, vorum búin að vera í miklu limbói allan daginn þar sem við vorum bæði vongóð, frá því að við héldum að þetta væri komið og í að vera viss um að þetta væri búið. Þetta voru miklar sveiflur. Við vorum öll tilbúin með ræður miðað við að þetta færi á þann veg að tilkynning til eftirlitsnefndar yrði samþykkt, kannski ekki sjö blaðsíður eins og Friðjón en nokkrar samt,“ segir Kolbrún.
Hún kveðst hafa verið búin að gera það upp við sig að það væri skylda sín sem bæjarfulltrúa að fara þá leið að tilkynna til Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um fjárþröng sveitarfélagsins. „Við vorum komin í greiðslufall og ég var sannfærð um að það væri búið að gera allt sem við gætum mögulega reynt til að landa þessu máli.“ Kolbrún segir það af og frá að bæjarstjórn hafi haft val um að tilkynna til nefndarinnar þegar svo var komið.
Sérfræðingar frá Deloitte og Logos hafa séð um samningaviðræður Reykjanesbæjar en bæjarfulltrúar hafa einnig setið fundi með þeim ásamt því að eiga óteljandi símafundi, að sögn Kolbrúnar. Í upphafi kjörtímabils fannst henni þetta stór skafl að fara í gegnum þegar hún var að reyna að átta sig á stöðunni, fjölda kröfuhafa og upphæð skuldanna sem eru gríðarlegar, eða rúmir fjörutíu milljarðar. „En eins og með allt námsefni þá minnkar það einhvern veginn þegar maður nær utan um það. Sambandið við samningamennina hefur verið afar gott, en þó hafa oddvitar framboðanna í meirihlutanum og bæjarstjórinn, Kjartan Már Kjartansson, átt afar marga erfiða og langa daga við gerð samninga og fundahöld.“
Kolbrún segir það hafa sýnt sig í gær hve miklu samvinna innan bæjarstjórnar hefði skilað. „Og hvað samherjar mínir eru frábærir. Við bæjarfulltrúar meirihlutans höfum fundað töluvert saman og með samningamönnum og einnig setið fundi með Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga nokkrum sinnum og hefur það verið mjög gott. Mér hefur reyndar fundist allt ganga voða hægt í þessu en það hefur eflt þolinmæðina í mér. Ég hef lengi sagt að þessi vinna hefði átt að fara fram mikið fyrr, þá værum við njóta betur uppgangsins og vaxtarins sem er greinilegur hér í bæ.“
Næstu tvær vikur verður reynt að ná samningum við þá lífeyrissjóði sem eru meðal kröfuhafa Reykjanesbæjar. Kolbrún ætlar að leyfa sér að vera bjartsýn og segir upplýsingarnar sem bárust í gær fyllilega gefa ástæðu til þess. „Samningar klárast nú líklega ekki á tveimur vikum en það verður vonandi komin einhver niðurstaða sem við getum haldið áfram með.“
Ljóst er að einhver skerðing hefði getað orðið á þjónustu við íbúa hefði fjárhaldsstjórn tekið við fjármálum Reykjanesbæjar, eins og allt stefndi í í gær. Aðspurð um viðbrögð íbúa við þeirri stöðu þá segir Kolbrún samstöðu meðal þeirra mikla. „Mín tilfinning er sú að fólk sé ekki búið að gleyma því hverjir það voru sem komu okkur í þessa stöðu sem við erum nú í og það sem er ánægjulegra er að flestir virðast tilbúnir til þess af heilum hug að hjálpa til við að koma okkur á réttan kjöl aftur. Okkur þykir öllum vænt um bæinn okkar.“