Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Ókeypis hádegisverður í skólanum í Vogum
  • Ókeypis hádegisverður í skólanum í Vogum
Föstudagur 13. janúar 2017 kl. 06:00

Ókeypis hádegisverður í skólanum í Vogum

- Sparar barnafjölskyldum tugi og jafnvel hundruð þúsunda á ári

Stóru-Vogaskóli í Vogum er einn örfárra skóla hér á landi þar sem nemendum er boðið upp á ókeypis hádegisverð. Að sögn Svövu Bogadóttur, skólastjóra Stóru-Vogaskóla, hefur framtakið vakið lukku meðal forráðamanna nemenda undanfarin ár, enda umtalsverð fjárhæð sem barnafjölskyldur spara árlega með fyrirkomulaginu. „Samkvæmt könnun Skólapúlsins þá eru bæði nemendur og foreldrar í langflestum tilvikum ánægðir með matinn.“ Blaðamaður Víkurfrétta kíkti í heimsókn í skólann á dögunum og þá voru kjötbollur á boðstólum.

Víða um land greiða foreldrar nokkur þúsund krónur á mánuði fyrir hádegisverð barna sinna á grunnskólaaldri. Á höfuðborgarsvæðinu getur upphæðin verið rúmlega 9.000 krónur á mánuði en á Suðurnesjum er upphæðin á bilinu 5.700 til 7.700 krónur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elín eldar grjónagrautinn í þessum risastóra potti. Grjónagrauturinn er vinsælasti rétturinn hjá nemendum Stóru-Vogaskóla.

Grjónagrautur og fiskur í raspi vinsælast
Elín Helgadóttir er kokkur Stóru-Vogaskóla og með henni starfar einn starfsmaður í eldhúsi skólans. Elín segir börnin kjósa einfaldleikann og er grjónagrauturinn alltaf vinsælasti rétturinn, ásamt ýsu í raspi og fiskibollum. Þegar grjónagrautur er í matinn eldar Elín 70 lítra. „Ég elda aldrei pítsu hérna en við bjóðum ýmist upp á hamborgara, pítu, kjúklingarétti eða lasagne á föstudögum. Það er smá gulrót fyrir nemendur eftir að hafa verið dugleg að borða hefðbundinn heimilismat alla vikuna,“ segir Elín.

Eldhús Stóru-Vogaskóla er vel tækjum búið og segir Elín það skipta sköpum við eldamennskuna enda geti hún þá eldað allan mat frá grunni. Nemendur við skólann eru um 200, auk þess sem starfsfólk snæðir í mötuneytinu. Þá eldar Elín einnig mat fyrir eldri borgara í Vogum í mötuneyti skólans. Elín bakar allt brauð sjálf, þar á meðal rúgbrauð sem er með fiski í hverri viku. Í mötuneytinu er salat- og ávaxtabar og geta þeir nemendur sem ekki vilja borða matinn fengið sér þeim mun meira þar.

Í mötuneytinu er lítil tunna fyrir það sem eftir er á diskunum. Áður var stærri tunna og þá var meiru hent.

Minni tunna fyrir minni sóun

Reynt er að sporna gegn matarsóun í Stóru-Vogaskóla. Í mötuneytinu var áður stór tunna fyrir matarafganga svo nemendur sáu ekki vel hversu miklu þeir hentu af diskum sínum dag hvern. Að sögn Svövu skólastjóra var skipt um tunnu og minni tunna sett í staðinn svo nemendur myndu átta sig betur á magninu í tunnunni. Það hefur virkað og matarsóun er minni. Dag hvern er reynt að nýta allan mat og heldur Elín nákvæmt bókhald yfir það hversu margir óhreinir diskar eru eftir hverja máltíð. Þannig veit hún nokkurn veginn hvort það eru yfirleitt 170 manns eða 200 sem fá sér hvern rétt. Áður fyrr var skammtað á diskana fyrir nemendur en nú fá þeir að skammta sér sjálfir og hefur það dregið enn meira úr matarsóun. Nemendur eru hvattir til að smakka allar máltíðir og að fá sér aðeins þann skammt sem þeir viti að þeir muni klára og fara þá frekar tvær ferðir þyki þeim maturinn sérstaklega góður.

[email protected]


Nemendur þurrka sjálfir af borðum eftir matartímann. Þessir drengir þurrkuðu vel og vandlega af sínu borði.

Nemendur skammta sjálfir á diskana og eru hvattir til að fá þér aðeins þann skammt sem þau vita að þau klára.

Elín Helgadóttir kokkur og Svava Bogadóttir skólastjóri.