Ók ölvaður á lögreglustöðina
Karlmaður á fertugsaldri kom akandi á lögreglustöðina við Hringbraut í Reykjanesbæ í gær, vegna erindis sem hann taldi sig eiga við lögreglu. Ekki er það í frásögur færandi að öðru leyti en því að þegar lögreglumaður ræddi við manninn reyndist vera áfengislykt úr vitum hans. Spurður kvaðst hann hafa komið akandi á lögreglustöðina. Maðurinn var látinn blása í áfengismæli, sem sýndi að hann var undir áhrifum áfengis. Hann var því handtekinn og færður til skýrslutöku í kjölfarið. Þar neitaði hann að hafa verið á bílnum. Tekin var af honum skýrsla og honum sleppt að því loknu.