Ók niður ljósastaur og hafnaði utan vegar
Umferðaróhapp varð á Reykjanesbraut í síðustu viku við byggðina í Innri Njarðvík. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku. Bifreiðin snérist á veginum og á leið sinni út í móa hafnaði bíllinn á ljósastaur.
Staurinn gaf eftir, eins og lög gera ráð fyrir, og bíllinn staðnæmdist skammt frá án þess að velta. Kalla þurfti til dráttarbíl sem fjarlægði bifreiðina, sem var óökufær, úr móanum.