Ók dráttarvél með skítadreifara út af Krýsuvíkurvegi
Ökumaður missti vald á dráttarvél sem hann ók eftir Krýsuvíkurvegi í gær með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum. Aftan í dráttarvélinni var stór skítadreifari sem ýtti henni út af veginum. Ökumaðurinn slapp án meiðsla en tækin voru stórskemmd eftir óhappið.
Annar ökumaður ók bifreið sinni yfir umferðarmerki og á ljósastaur á Reykjanesbraut. Hann slapp án meiri háttar meiðsla. Þegar lögregla ræddi við hann viðurkenndi hann neyslu áfengis og fíkniefna.
Þá hefur lögreglan á Suðurnesjum kært sex ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Fimm voru teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur og þrír óku án ökuréttinda.