Ók á grindverk í Grindavík
- Nokkrir ökumenn undir áhrifum áfengis og vímuefna handteknir að undanförnu
Lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum vegna vímuaksturs á undanförnum dögum. Lögreglumenn komu til dæmis að bíl sem ekið hafði verið á grindverk í Grindavík. Einn maður var í bílnum og var hann sjáanlega mjög ölvaður. Hann var færður á lögreglustöð. Bíllinn var óökufær eftir atvikið, loftpúði sprunginn út og hjólabúnaður brotinn.
Þá veittu lögreglumenn öðrum bíl athygli þar sem honum var ekið yfir vegkant. Ökumaðurinn hafði, auk áfengis, neytt fíkniefna, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu.
Tveir ökumenn til viðbótar voru einnig handteknir og færðir á lögreglustöð vegna vímuefnaaksturs.