Ók á 153 kílómetra hraða
Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarna daga haft afskipti af fimm ökumönnum sem óku of hratt. Sá sem hraðast ók var rúmlega fertugur karlmaður. Bifreið hans mældist á 153 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar.
Hinir fjórir mældust á meira en 120 kílómetra hraða. Ökuþórarnir þurfa að greiða umtalsverðar sektir, misháar eftir alvarleika brotanna. Þá klippti lögregla númer af tveimur bifreiðum sem eigendur höfðu trassað að færa til endurskoðunar.