Ögmundur leggst gegn starfsemi ECA á Suðurnesjum
Ögmundur Jónasson, ráðherra samgöngumála, leggst gegn því að ECA hefji rekstur flugþjónustu fyrir herflugvélar hér á landi. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Ögmund út í málið á Alþingi í dag. Greint er frá þessu á Vísi í dag. Ögmundur sagði að undirbúningur þess að auðvelda ECA, að hefja hér starfsemi myndi kosta umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði.
„Þar værum við að mínu mati að tefla mjög mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum og atvinnuhagsmunum Íslendinga í tvísýnu vegna þess að í flugheiminum, sem er mjög viðkvæmur, eiga Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta. Það er mjög eindregin afstaða flugmálayfirvalda að þetta sé ekki ráðlegt, það sé ekki ráðlegt að ráðast í þetta verkefni og menn eigi ekki að láta undan þrýstingi í þeim efnum. Ég er mjög eindregið á þeirri skoðun að það væri ekki gott ráð á heildina litið að ráðast í þetta verkefni, alls ekki,“ sagði Ögmundur á Alþingi í dag.
Sigurður Ingi mótmælti þeim orðum ráðherrans að verkefnið myndi hafa í för með sér kostnað fyrir hið opinbera. „Til að mynda hefur það komið fram að fyrirtækið hefur lýst því yfir að það hyggst greiða allan kostnað sem á ríkið mun falla,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sakaði ráðherra í ríkisstjórninni um að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.
Heimild: www.visir.is