Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ofursamningur fyrrverandi bæjarstjóra fáránlegur
Föstudagur 23. janúar 2009 kl. 08:46

Ofursamningur fyrrverandi bæjarstjóra fáránlegur



Samningur fyrrverandi bæjarstjóra Grindavíkur er lýsandi dæmi fyrir þá ofursamninga sem viðgengust í íslensku samfélagi á þeim tíma sem hann var gerður, þó öllum sé ljóst í dag hversu fáránlegir svona samningar eru.
Þetta segir í bókun meirihluta B- og S- lista í bæjarstjórn Grindavíkur frá fundi hennar í fyrradag þar sem kaupsamningur vegna húss fyrrverandi bæjarstjórans var til afgreiðslu. Sem kunnugt er hefur bæjarsjóður keypt húsið eins og kveðið var á um í ráðningasamningi bæjarstjórans fyrrverandi,  Ólafs Arnar Ólafssonar. Samkvæmt samningum heldur hann einnin launum út kjörtímabilið, sem lýkur á næsta ári. Kaupverð hússins var tæpar 50 milljónir króna.

Skipst var á bókunum á fundinum vegna málsins. Í bókun sem minnihlutinn lagði fram segir að enn aukist kostnaður bæjarins vegna bæjarstjórnarskiptanna. Þetta sé ótímabær kostnaður sem falli á bæjarbúa en hefði verið betur varið til uppbyggingar.

„Til upplýsingar fyrir bæjarbúa, sem og fyrir fulltrúa D-lista, þá voru kaup fyrrverandi bæjarstjóra á húsnæðinu að Glæsivöllum 8, bundin neysluverðsvísitölu og sú kvöð á Grindavíkurbæ að kaupa húsið innan sex mánaðar frá starfslokum fyrrverandi bæjarstjóra. Það kemur kannski fáum á óvart að aðalhugmyndasmiðir að þessum samningi voru sjálfstæðismenn.
Það má öllum vera ljóst að kostnaðurinn hefði verið miklu meiri ef beðið hefði verið til loka kjörtímabilsins eða lengur að gera þennan ofursamning upp, “segir í bókun sem meirihlutinn lagði fram í framhaldinu.

Og fulltrúar D-lista svöruðu um hæl með svohljóðandi bókun:

„Það kemur okkur Sjálfstæðismönnum ekki á óvart að Samfylkingin reyni að koma eigin gjörðum yfir á aðra og reyni að komast undan allri ábyrgð. Samfylkingin átti frumkvæðið að því að húsnæði bæjarins sem bæjarstjóri bjó í var selt og gerður yrði samningur við fráfarandi bæjarstjóra um kaup á hans húsnæði við starfslok.
Sjálfstæðismenn skorast ekki undan því að hafa tekið þátt í gerð samningsins.“

Fulltrúar S-lista í meirihlutanum bókuðu sérstaklega vegna málsins en þar segir:
„Samfylkingin gengst alveg við þá stefnu sína og skoðun að tekjuháir embættismenn búi í eigin húsnæði og stöndum ennþá við þá skoðun.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024