Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ofurbíll með steikta kúplingu á Grindavíkurvegi
Mánudagur 31. maí 2004 kl. 17:19

Ofurbíll með steikta kúplingu á Grindavíkurvegi

Hverjar eru líkurnar á því að þú mætir glænýjum Ferrari sportbíl í umferðinni á Íslandi? Hverjar eru þá líkurnar á því að þú akir framá yfirgefinn Ferrari sportbíl úti í vegarkanti? Vegfarendur um Grindavíkurveg ráku upp stór augu í gær þegar skyndilega mátti sjá rauðan Ferrari, metinn á 90 milljónir króna, yfirgefinn í vegarkantinum.
Víkurfréttum barst tilkynning um bílinn um kvöldmatarleitið í gærkvöldi og sendu ljósmyndara strax á staðinn. Ekki á hverjum degi sem maður sér Ferrari á Íslenskum þjóðvegi og því ástæða til að mynda gripinn. Ljósmyndarinn var á vettvangi í um klukkustund en enginn bílstjóri gaf sig fram. Nú fór að læðast sá grunur að tíðindamanni Víkurfrétta að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið tekinn fyrir of hraðan akstur, enda þessir bílar vart smíðaðir til að dóla sér á sunnudagsrúnti á Grindavíkurveginum. Haft var samband við lögregluna í Keflavík og hún kannaðist ekki við að hafa tekið ökumann rauðrar Ferrari-bifreiðar til bæna. Hins vegar var mikill áhugi á lögreglustöðinni fyrir 90 milljóna kr. Ferrari og því fóru ekki færri en tveir lögreglubílar á vettvang með fjórum mönnum. Vissara, því ef Ferrari-bíllinn væri kominn á ferðina yrðu menn að vera við öllu búnir til að stoppa hann!
Þegar löggan kom á staðinn var hins vegar enginn ökumaður sjáanlegur, frekar en þegar ljósmyndari Víkurfrétta kom að bílnum klukkustund áður. Lögreglumenn könnuðu bifreiðina og kom í ljós að hún var ólæst. Lyktin af bílnum var í þá veru að eitthvað hafi gefið sig. Eftir símtöl í nokkrar áttir tókst að hafa uppi á umráðamanni bifreiðarinnar hér á landi og kom þá í ljós að einstaklingur hafði fengið bílinn til reynsluaksturs með þeim afleiðingum á kúplingin gaf sig!
Góð ráð voru dýr, því ekkert sérhæft Ferrari-verkstæði er á Íslandi og næsta verkstæði er í Svíþjóð. Þar höfðu menn hins vegar aldrei fengið þessa árgerð til viðgerðar. Dráttarbíll var hins vegar á leiðinni og aðstoðaði lögreglan við að koma bílnum upp á pall hennar. Það verður leyndarmál bílstjóra Ferrari-bílsins á hvaða hraða hann var þegar hann grillaði kúplinguna en það var að heyra á lögreglumönnunum á vettvangi í gær að þeir hefðu vel viljað skella bláu ljósunum á rauða soprtbílinn, sem nú verður sendur bilaður til útlanda í viðgerð.
Miðað við það að einn bremsudiskur í svona bíl kosti um tvær milljónir króna, hvað ætli ný kúpling kosti?

 

Lögreglumennirnir úr Keflavík fengu leyfi umráðamanns bílsins til að setjast inn í gripinn og hvað ætli þeir hafi rekið fyrst augun í? Nú, radarvara. Lítið gagn af svoleiðis apparati þegar kúplingin er farin...

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024