Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 21. nóvember 2003 kl. 10:02

Ófullnægjandi merkingar valda tjóni

Ófullnægjandi merkingar manna sem unnið hafa að viðgerðum á gatnakerfi Reykjanesbæjar hafa ratað inn á borð lögreglunnar í Keflavík í vikunni. Í öðru tilvikinu ók bílstjóri á umferðaraðvörunarkeilur innarlega á Njarðarbraut í Njarðvík. Þar hafði verið unnið að viðgerðum á götunni og framkvæmdirnar merktar með keilum. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp við Hringbraut 92 í Keflavík. Þar var búið að skera  djúpa holu í malbikið vegna viðgerðar. Höfðu tvær stikur verið settar ofan í holuna. Ökumaður bifreiðar sem ekið var þarna um sá ekki stikurnar fyrr en rétt áður en hann kom að þeim. Lenti bifreiðin á annarri stikunni og skemmdist lítilsháttar við það. Vinstra framhjól bifreiðarinnar lenti ofan í holunni og skemmdist hjólbarðinn og felgan. Haft var samband við vakt Þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar um að setja upp betri merkingar við holuna og var það gert. Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar sem er hér meðfylgjandi:

Mánudagurinn 17. nóvember 2003.
Á næturvaktinni voru tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut.  Mældur hraði hjá öðrum þeirra var 136 km þar sem hámarkshraði er 90 km.  Einn ökumaður var kærður fyrir að vera tala í farsíma við aksturinn án þess að nota handfrjálsan búnað. 
Kl. 07:44 var tilkynnt um að eldur væri laus í fólksflutningabifreið á Reykjanesbraut við Fitjar. Í ljós kom að eldur hafði verið laus í vélarrými bifreiðarinnar en ökumaður réði niðurlögum eldsins. Einhverjar skemmdir urðu í vélarrými. Farþegar bifreiðarinnar fóru með með öðrum rútum til áfangastaðar sem var Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá sakaði ekki.
Kl. 15:09 var lögreglu tilkynnt árekstur tveggja fólksbifreiða á gatnamótum Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Annarri bifreiðinni var ekið austur Reykjanesbrautina í átt til Reykjavíkur en hinni var ekið vestur brautina og áleiðis til suðurs inn á Grindavíkurveg þegar þær skullu saman. Ökumenn bifreiðanna, ungar konur, sem voru einar í bifreiðunum, sluppu án meiðsla en flytja þurfti bifreiðarnar á brott með dráttarbifreið enda mikið skemmdar.

Þriðjudagurinn 18. nóvember  2003.
Á  næturvaktinni voru sjö ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í Keflavík.  Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir að stöðva ekki við gatnamót þar sem uppi er STOP merki, stöðvunarskylda.
Á dagvaktinni var gerð könnum á því hvort stöðvunarskylda væri virt á mótum Reykjanesbrautar og Stekks.   Síðan á mótum Njarðarbrautar og Stekks.   Allir sem óku um þessi gatnamót virtu stöðvunarskylduna.
Á Baldursgötu í Keflavík voru sjö ökumenn stöðvaðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur og einn 14 ára farþegi var ekki með beltið spennt. 
Tveir árekstrar urðu í Keflavík annar við Smiðjuvelli og hinn á mótum Hringbrautar og Tjarnargötu.
Vegargerðin (viktarnir) stöðvuðu tvær vörubifreiðar með festivagna sem voru of þungar. Önnur bifreiðin var með 30% yfir leyfðum ásþunga en hin var 10% yfir leyfðum þunga. Ökumönnum bifreiðanna var gert að létta þær á staðnum.
Kl. 19:49 tilkynnti ökumaður bifreiðar um Njarðarbraut, að móts við BYKO í Njarðvík hafi hann ekið á umferðaraðvörunarkeilur og bifreið hans hafi stórskemmst að framan. Þarna var verið að bæta malbikið í götunni og voru keilurnar hafðar til viðvörunar.
Kl. 21:45 kom tilkynning til lögreglunnar að krakkar hafi ruðst inn í hús í Keflavík. Í ljós kom að þarna voru fjórir strákar á aldrinum 13 og 14 ára og höfðu farið óboðnir inn í stigagang, með hávaða og látum.  Foreldrum drengjanna var gert að sækja þá og taka í sína umsjá.
Kl. 23:23 tilkynnt til lögreglunnar innbrot í einbýlishús, í Keflavík.  Heimilisfólkið er í útlöndum, en öryggiskerfi hússins hafði farið í gang.  Gluggi hafði verið spenntur upp og ræst öryggiskerfið.  Ekki var að sjá að innbrotsþjófurinn hafi haft eitthvað upp úr krafsinu.  Væntanlega komið styggð að honum þegar öryggiskerfið fór í gang. 
Á kvöldvaktinni voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur.  óku þeir báðir á 89 km hraða þar sem leyfður er 70 km/klst.

Miðvikudagurinn 19. nóvember 2003.
Á næturvaktinni, voru tólf eigendur bifreiða  kærðir fyrir að mæta ekki með þær til skoðunar á tilsettum tíma.
Þá voru númer tekinn af einni bifreið sem ekki hafði verið færð til skoðunar þrátt fyrir boðun lögreglu.
Þessa vikuna standa lögregluliðin á Suðvesturlandi fyrir umferðarátaki þar sem fylgst er sérstaklega með að stöðvunarskylda sé virt.  Einnig er fylgst með umferð um ljósastýrð gatnamót og að lokum verður fylgst með því hvort ökumenn noti stefnumerki.
Einn ökumaður var kærður fyrir stöðvunarskyldubrot í dag.
Kl. 16:45 var tilkynnt að hvítri sendibifreið hafi verið ekið utan við hliðarspegil á vörubifreið sem var kyrrstæð í bifreiðastæði á Hringbraut móts við hús nr. 58.  Tjónvaldur ók á brott.
Kl. 19:42 var tilkynnt um innbrot í einbýlishús við Langholt í Keflavík. Hafði verið farið þar inn um glugga og stolið tölvu, DVD-spilara og tveimur myndbandstækjum. Hugsanlegt er að fleiru hafi verið stolið en eigendur höfðu farið erlendis í dag. Innbrotið var framið á milli kl. 16:50 og 19:40 í dag.
Kl. 20:30 var tilkynnt um umferðaróhapp við Hringbraut 92. Þar var búið að skera holu í malbikið vegna viðgerðar. Höfðu tvær stikur verið settar ofan í holuna. Ökumaður bifreiðar sem ekið var þarna umsá ekki stikurnar fyrr en rétt áður en hann kom að þeim. Lenti bifreiðin á annarri stikunni og skemmdist lítilsháttar við það. Vinstra framhjól bifreiðarinnar lenti ofan í holunni og skemmdist hjólbarðinn og felgan. Haft var samband við vakt Þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar um að setja upp betri merkingar við holuna og var það gert.
Kl. 23:58 var tilkynnt um árekstur á gatnamótum Aðalgötu og Heiðarbrúnar. Engin slys urðu á fólki en nokkrar skemmdir á bifreiðunum. Þurfti að fjarlægja aðra þeirra með dráttarbifreið.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir stöðvunarskyldubrot.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024