Ofsaveður eftir helgi
Mjög kröpp lægð nálgast landið og kemur upp að suðvesturströndinni árla mánudags. Má búast við afspyrnuvondu veðri í það minnsta fyrri hluta dagsins. ,,Þetta er ein af þessum lægðum sem búast má við tvisvar eða þrisvar á vetri. Ef spáin gengur eftir og allt fer á versta veg á ofsaveður eftir að ganga yfir okkur á mánudaginn. Þessi lægð verður um 955 millibör, ljót vetrarlægð sem auðveldlega getur valdið skaða á mönnum og munum," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur og hvetur fólk til að leggja ekki á heiðar eða fjallvegi á meðan versta hrinan gengur yfir. Einnig væri ráð að halda börnum innandyra.,,Tölvuspám ber nokkuð saman um þetta ofsaveður," segir Sigurður. Á þriðjudag slotar veðrinu eitthvað en verður samt hvasst og gengur á með rigningu eða slyddu. ,,Það verður byljótt fram eftir næstu viku en ég hvet fólk eindregið til að fylgjast með veðurspám á morgun og gera ráðstafanir sínar samkvæmt þeim," segir veðurfræðingurinn í samtali við Fréttablaðið/Vísi.is í morgun.