Óformlegar viðræður hafnar milli flokka nú þegar
Sjáðu stemninguna á kosninganótt í Reykjanesbæ
Nú þegar eru hafnar viðræður milli flokka samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Friðjón Einarsson oddviti Samfylkingar kíkti m.a. í heimsókn í bækistöðvar Beinnar Leiðar eftir að fyrstu tölur voru kynntar, en þar sást hann ræða málin við Kolbrúnu Jónu Pétursdóttur sem skipar þriðja sæti hjá Beinni Leið. Samkvæmt fystu tölum er meirihluti Sjálfstæðisflokks fallinn og aðrir flokkar farnir að stinga saman nefjum og þreifa fyrir sér.
Víkurfréttir voru á staðnum hjá nokkrum framboðum þegar fyrstu tölur voru að detta í hús í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ. Mikil kátína ríkti hjá Beinni Leið og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar fyrstu tölur lágu fyrir enda tveir menn inni samkvæmt þeim. Stemningin var sæmileg hjá Samfylkingunni en Friðjón Einarsson stappaði stáli í sitt fólk við góðar undirtektir. Vissulega mátti greina vonbrigði vegna þess að Eysteinn Eyjólfsson, þriðji maður á lista, var ekki inni samkvæmt fyrstu tölum.
Framsóknarmenn voru ekki sáttir við sinn hlut og sagði Kristinn Jakobsson að þessar tölur væru vonbrigði. „Þessar fyrstu tölur koma mér mjög á óvart miðað við það viðmót sem við höfðum fengið frá bæjarbúum í kosningabaráttunni og skoðanakannanir“ sagði Kristinn.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði fyrstu tölur vonbrigði þó flokkurinn hafi bætt við sig frá skoðanakönnunum og Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls tók undir orð Guðbrandar um að aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn reyndu að mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Mikil fagnaðarlæti hjá Beinni Leið.
Samfylkingarmenn bíða eftir fyrstu tölum með öndina í hálsinum.
Framsóknarmenn voru ekki alls kostar sáttir við fyrstu tölur.
Anna Lóa Ólafsdóttir er inni eins og stendur.
Bein Leið er byrjuð að skoða málin.