Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ofnasmiðja Suðurnesja seld til BYKO
Miðvikudagur 2. nóvember 2005 kl. 10:51

Ofnasmiðja Suðurnesja seld til BYKO

Jón William Magnússon og Steinþór Jónsson, eigendur Ofnasmiðju Suðurnesja, hafa selt fyrirtækið til BYKO og voru samningar undirritaðir í vikunni að viðstöddum starfsmönnum fyrirtækisins. Eigendur lögðu mikla áherslu í samningarviðræðum, sem staðið hafa yfir síðustu fjóra mánuði, að allir starfsmenn héldu sinni vinnu við fyrirtækið og að starfstöð OSS yrði áfram að Víkurbraut 2 í Keflavík. Ofnasmiðja Suðurnesja verður því áfram í Reykjanesbæ og munu allir starfsmenn OSS áfram þjóna sínum viðskiptavinum hér eins og hingað til.
Í þessu samhengi má taka fram að meðalstarfsaldur fyrirtækisins er um 23 ár sem hlýtur að teljast einstakt nú á dögum og vildu eigendur OSS þakka velgengi fyrirtækisins góðum starfsanda og traustum viðskiptavinum um áraraðir.

Mikil uppsveifla hefur verið á ofnamarkaði síðustu 2-3 ár enda mikið byggt og uppbygging húsnæðis í algjöru hámarki. Ofnasmiðja Suðurnesja hefur ekki farið varhluta af þessari uppsveiflu enda er fyrirtækið leiðandi í ofnaframleiðslu og sölu miðstöðvarofna. Það má því segja að fyrirtækið sé selt á toppnum eftir að sömu eigendur hafa rekið það í 33 ár undir kjörorðinu „Hitinn kemur að sunnan" sem flestir kannast við þrátt fyrir að auglýsingar hafi ekki verið áberandi hjá fyrirtækinu. Í OSS eru framleiddir svokallaðir Rúnt-yl ofnar en aðalsala fyrirtækisins eru Vor-yl ofnar sem eru innfluttir frá Belgíu. Að auki eru svokallaðir handklæðaofnar áberandi hjá fyrirtækinu.

Ofnasmiðja Suðurnesja er eitt af þeim fyrirtækjum sem allir þekkja héðan að sunnan en markaður fyrirtækisins er landið allt og miðin eins og eigendur orðuðu það. Það voru hjónin Jón William Magnússon og Unnur Ingunn Steinþórsdóttir sem stofnuðu fyrirtækið þann 13. febrúar 1972 en þá átti eiginkonan 30 ára afmæli. Eftir um 20 ára starfsemi að Vatnsnesvegi 12 þar sem Hótel Keflavík er nú til húsa flutti OSS í nýtt húsnæði að Víkurbraut 2, svokallaða litlu milljón, sem tók þegar miklum breytingum. Flestar vélar fyrirtækisins voru heimasíðaðar undir góðri yfirstjórn Jóns William. Steinþór Jónsson hefur verið framkvæmdarstjóri OSS í 23 ár en hafði þá starfað í smiðjunni í sjö ár með skóla.

Hótel Keflavík er einnig í eigu fjölskyldunnar en það var opnað árið 1986. Hugmyndir um stækkun og frekari þjónustu eru uppi á borðinu og verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun á næstu árum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér fyrirtækið og sögu þess má benda á heimasíðunna www.ofnar.is en þar eru m.a. greinar, myndir og fleira sem tengist fyrirtækinu síðustu 33 árin.

Jón William og Steinþór voru að sögn mjög ánægðir með samninginn við BYKO og vildu koma á framfæri þökkum til allra starfsmanna sinna fyrr og síðar. Einnig vildu þeir þakka viðskiptavinum sínum tryggð og góðan vinskap um áraraðir. Óskuðu þeir eigendum BYKO alls hins besta en þeir sögðu BYKO vera öflugan aðila á lagnamarkaði og sögðust vissir um að Ofnasmiðja Suðurnesja myndi án efa eflast og stækka til langrar framtíðar enda fyrirtækið með einstaka starfsmenn, trausta viðskiptavini og gæða ofna sem ekki ættu sína líka.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024