Öflugur rekstur Isavia á Keflavíkurflugvelli - 37 ný störf
Auka þurfti fjölda stöðugilda um 37 á Keflavíkurflugvelli sl. sumar vegna aukinna verkefna í flugvernd og aukins álags. Eitt og hálft ár er nú liðið frá sameiningu opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í Isavia ohf. Til viðbótar var félagið Flugfjarskipti sameinað Isavia 1. júlí 2010 en var rekið sem sér rekstrareining til 1. janúar 2011. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia er 50 ára og tók við starfinu á haustmánuðum 2008.
Björn segir miklar breytingar hafa orðið á rekstri Isavia fyrsta rekstrarár félagsins en hann einkenndist m.a. af truflunum af völdum eldgosa og mikilli farþegaaukningu á Keflavíkurflugvelli en lítilsháttar fækkun farþega í innanlandsflugi. Aukning varð þó í Grænlands- og Færeyjaflugi á Reykjavíkurflugvelli. Gríðarlegur niðurskurður hefur orðið á framlögum ríkisins auk þess sem viðbótarálögur hafa verið lagðar á reksturinn í formi lækkunar á undanþágu frá áfengis- og tóbaksgjaldi hjá dótturfélaginu, Fríhöfninni.
„Það sem er þó jákvætt er að sl. vor var lögum um fjármögnun flugmálaáætlunar breytt og flugvallaskattar og varaflugvallargjald var afnumið. Á sama tíma var sett upp gjaldskrá fyrir alla flugvelli landsins, þ. á m. Keflavíkurflugvöll sem er rétt skref í þá átt að gera hann að sjálfbærri rekstrareiningu.
Þróun ríkisframlaga til reksturs allra flugvalla undanfarin ár hefur verið sú að þau hafa lækkað um a.m.k. 1 milljarð síðan 2007 að raunvirði og 2,3 milljarða ef framlag ársins 2007 er bætt við og framreiknað.
Sameining og samræming hefur m.a. leitt til þess að dregið hefur úr aðkeyptri þjónustu og samnýting á vinnuafli aukist. Leitast er við að nýta þann mannkost sem er innan félagsins og starfsmenn hafa í nokkrum tilvikum flust milli deilda.
Launakostnaður hins sameinaða félags hækkaði um 1,7% fyrsta árið en launavísitalan hækkaði um 7,1% á sama tíma.
Beinn sparnaður vegna sameiningar má segja að sé fækkun í yfirstjórn og má meta þann kostnað á um 55 milljónir króna. Bein hagræðing af sameiningu Flugstoða, Keflavíkurflugvallar og síðan Flugfjarskipta má meta á a.m.k. 200 milljónir króna auk sparnaðar ríkissjóðs með lækkun fjárframlags til reksturs á flugvalla- og flugleiðsögukerfi landsins.“
Björn Óli er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku. Hann hafði áður en hann tók við hjá Isavia m.a. unnið hjá Rauða krossinum erlendis og sem sveitarstjóri Tálknafjarðar í þrjú ár. Hann vann í sex ár að uppbyggingu flugmála í Kósóvó þar sem hann setti á laggirnar flugmálastjórn Sameinuðu þjóðanna (CARO - UNMIK Civil Aviation Regulatory Office) og starfaði síðan sem forstjóri Pristina International Airport J.S.C og sem verkefnisstjóri þar á vegum Flugmálastjórnar Íslands og Flugstoða ohf. um nokkurra ára skeið.
Hann hefur því mikla reynslu af að stjórna alþjóðaflugvelli með tilheyrandi faglegri og fjárhagslegri ábyrgð, stefnumótun og málum sem varða skipulag, umhverfi, öryggi og faglegt eftirlit. Björn Óli tók meðal annars þátt í að sameina fyrirtæki um rekstur flugvallar og flugstöðvar í Kósóvó og hefur unnið að því að byggja upp sameinað félag þar að lútandi.
Hann starfaði í Kósóvó frá árinu 2000, fyrst sem tæknisérfræðingur við uppbyggingu mannvirkja og tæknibúnaðar en síðar sem sérfræðingur og umsjónarmaður fjölda verkefna í stjórnsýslunni og rekstri hins opinbera þar.
Björn Óli býr með eiginkonu sinni og tólf ára dóttur í Keflavík og segir fjölskylduna ánægða í Keflavík. Eiginkonan starfar á Heilsugæslustöð Suðurnesja og dóttirin kann vel við sig í Holtaskóla. Björn Óli segist kunna vel við sig í bítlabænum enda sé mesta starfsemi Isavia í Keflavík en þó þurfi hann að vera mikið á ferðinni í starfi sínu en flugvellir á landsbyggðinni heyra m.a. undir starfsemi Isavia. Hann rifjar það upp þegar hann fór í viðtal vegna starfs síns hjá tveimur Suðurnesjamönnum í stjórn félagsins sem hafi spurt hann hvar ætlaði að búa? „Ég sagðist ætla að flytja til Keflavíkur og það féll í góðan jarðveg þó ég viti ekki hvort það hafi haft nokkur áhrif á það að ég fékk starfið,“ segir Björn Óli.