Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 16. febrúar 2001 kl. 11:39

„Öflugt svæði við fyrstu kynni“, segir Júlíus Jónsson forstjóri HS

Boranir Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og í Trölladyngju hafa gengið misjafnlega vel á undanförnum vikum.
Í Svartsengi er verið að bora holu 21 í síðustu viku. Borin festist þegar hann var kominn niður á um 925 metra. Stafsmönnum HS tókst að losa borinn og hafði hann þá verið fastur í um viku tíma. „Sprengja varð borstrenginn sundur niðri í holunni og skilja hluta hans þar eftir.
Borun er hafin á ný og verður nú borað með því að sveigja fram hjá festunni og þeim hluta borstrengsins, sem skilinn var eftir í holunni. Stefnt er að því, að holan verði um 2500 metra djúp og með því er verið að kanna djúphluta jarðhitakerfisins. Holan er og boruð sem vara- og vinnsluhola fyrir orkuver fimm“, segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS.
Í Trölladyngju er hafin borun um 2000 metra djúprar háhitaholu til tilrauna og könnunar á jarðhitasvæðinu. „Fyrsti áfangi borunarinnar hófst með borun víðrar holu, sem átti að ná niður á um 70 metra dýpi og sem steypa átti í stálrör“, segir Júlíus þegar hann er spurður um gang framkvæmda á svæðinu. „Þegar borinn var kominn niður á um 30 metra dýpi varð að hætta borun þar sem einungis munaði um 2 til 3 gráðum að holan gysi. Gripið var til þess ráðs að bora granna könnunarholu og var ætlunin að hún yrði boruð niður á um 100 metra dýpi. Það fór sem fyrr að hætta varð á miðri leið vegna hita og þrýstings gufunnar, sem á vegi varð. Þetta eru í reynd afar ánægjuleg tíðindi og spennandi þar sem svæðið virðist mjög öflugt við fyrstu kynni. Nú er verið að breyta verklagi lítillega svo unnt verði að bora holuna“, segir Júlíus og er bjartsýnn þrátt fyrir að ýmis vandamál hafi látið á sér kræla í ferlinu. Jötunn, stærsti bor Jarðborana hf. mun bora holuna og verður hann fluttur á svæðið að lokinni borun í Svartsengi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024