Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Öflugt foreldrasamstarf mikilvægt
Anna Sigríður Jóhannsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir
Sunnudagur 17. september 2017 kl. 09:00

Öflugt foreldrasamstarf mikilvægt

- segja verkefnastjórar FFGÍR

„Foreldrar eru lykilpersónur þegar kemur að velferð barna og ungmenna og samstarf heimilis og skóla þarf að byggja á trausti og sameiginlegri sýn,“ segja þær Anna Hulda Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannsdóttir, verkefnastjórar foreldrafélaga grunnskólanna í Reykjanesbæ, FFGÍR.
FFGÍR eru regnhlífasamtök fyrir öll foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ og hafa þau það að markmiði að efla samstarf foreldra í grunnskólum og samstarf heimila og skóla með velferð barna að leiðarljósi.

Brennandi áhugi á menntamálum
„Við tókum við af Ingigerði Sæmundsdóttur sem hafði unnið ötullega fyrir samtökin í nokkur ár. Ástæðan fyrir því að við tókum verkefnið að okkur var sú að við vorum í stýrihópi um gerð nýrrar menntastefnu sem kom út síðastliðið haust og okkur langaði að fylgja markmiðum menntastefnunnar um öflugt foreldrastarf og forvarnir á öllum skólastigum. Við höfum báðar brennandi áhuga á menntamálum og velferðarmálum almennt. Okkur er virkilega umhugað um velferð barna og ungmenna í Reykjanesbæ, enda eigum við báðar grunnskólabörn. Við teljum foreldra vera lykilpersónur þegar kemur að velferð barna.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvægt að vera með puttann á púlsinum
„Við eigum fulltrúa í fræðsluráði og sitjum báðar í SAMTAKA  hópnum sem er forvarnar og aðgerðarhópur sem saman stendur af þverfaglegum hópi fólks. Við eigum einnig fulltrúa í stýrihópi um heilsueflandi samfélag og sitjum í fulltrúaráði Heimilis og skóla. Við höfum því góðar tengingar í allar áttir og nýtum við þær óspart.“

Gott samstarf lykilatriði
„Við leggjum áherslu á gott samstarf við skólastjórnendur enda er það lykillinn að góðri samvinnu. Við teljum að samvinna allra þeirra sem koma að börnum og ungmenna vera mjög mikilvæga. Fyrir okkur er mikilvægt að allir séu á sömu hillu,og enginn verði útundan. Formenn allra foreldrafélaganna í Reykjanesbæ hittast reglulega í Fjölskyldusetrinu og stilla saman strengi sína. Þar samræmum við aðgerðir og ræðum það sem er efst á baugi hverju sinni. Þessir hittingar eru afar mikilvægir og hafa þeir meðal annars skilað því að öll foreldrafélögin hafa sameinast um að bjóða upp á fyrirlestra og fræðsluerindi bæði fyrir foreldra og nemendur. Í ár leggjum við áherslu á að virkja bekkjar- og árgangafulltrúa í öllum árgöngum grunnskólanna.“

Styðja við bakið á bekkjarfulltrúum
„Í október höfum við fyrirhugað fræðslukvöld og vinnufund fyrir bekkjar- og árgangafulltrúa þar sem við munum skipuleggja komandi vetur. Hugmyndin okkar er að styrkja foreldra í sínum hlutverkum sem bekkjar- og árgangafulltrúa því margir eru óöruggir með það hvað felst í því hlutverki. Okkar draumur er að fá alla árganga til að hittast að minnsta kosti einu sinni á skólaárinu, spjalla saman með góðan kaffibolla og ræða foreldrasáttmála Heimilis- og skóla og síðan undirrita hann. Heildin er sterkari en einstaklingurinn og ef allir eru á sömu blaðsíðu hvað varðar viðmið og reglur þá gengur allt svo miklu betur.“

Börn á ábyrgð foreldra til átján ára aldurs
„Við erum að hefja samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þessa dagana. Ástæðan er sú að börn eru ennþá á ábyrgð foreldra sinna til átján ára aldurs og áherslur FFGÍR eiga ekki síður við eldri nemendur eða fram að átján ára aldri. Samstarfið er liður í því að brúa bilið milli skólastiga og styðja við foreldra nýrra framhaldsskólanema.“

Mikilvægt að vinnan sé markviss
„Innan FFGÍR ríkir gott samstarf við Rannsóknir og greiningu sem stendur fyrir könnun á högum og líðan nemenda á miðstigi. Okkar markmið er að skipuleggja fræðsluerindi og fleira í þeim dúr til þess að bregðast við niðurstöðum rannsókna. Á síðasta skólaári buðum við meðal annars upp á fræðslu fyrir foreldra á mið- og unglingastigi um kvíða barna þar sem að niðurstöður leiddu í ljós aukinn kvíða meðal nemenda á miðstigi. Okkar svæði mældist hærra en annars staðar á landinu. Þetta er svo mikilvægt og það skiptir svo miklu máli að foreldrar átti sig á því að þeir geta sjálfir gert ýmislegt til að huga að verndandi þáttum barnanna sinna. Eins og til dæmis að vakta skjánotkun þeirra í snjalltækjum, huga að mataræðinu og sjá til þess að þau fái nægan svefn. Allt eru þetta mikilvægir þættir foreldrahlutverksins og gott þegar allir eru á sömu línu varðandi þessa þætti.“

Allar upplýsingar um starf FFGÍR má finna á Facebook