Öflugasta dekurhótel landsbyggðarinnar
Lífsstíll en ekki meðferð, segir Ragnar Snær Ragnarsson á Heilsuhótelinu á Ásbrú
Starfsemi Heilsuhótelsins á Ásbrú er ansi fjölbreytt. Þar er m.a. boðið upp á tveggja vikna námskeið sem laðar að sér fjölda gesta erlendis frá, ýmis helgarnámskeið fyrir hópa og fyrsta flokks dekur fyrir alla. Ragnar Snær Ragnarsson tók við rekstri Heilsuhótelsins í byrjun árs 2011, en helstu breytingarnar sem hafa orðið segir hann vera að nú megi líta svo á að gestir komi í lífstílsskóla í staðinn fyrir einhvers konar meðferð. Langflestir gestir eru ánægðir með aðstöðuna sem og dvölina í heild og segja margir þetta vera ómissandi part af sumarfríinu þar sem slökun og heilsurækt er í fyrirrúmi.
Heilsunám í staðinn fyrir sólarlandaferð
Á lengri námskeiðunum sem standa yfir í tvær vikur í senn eru um 30-60 gestir, margir hverjir Íslendingar en einnig er mikið um hópa frá Norðurlöndunum og Bretlandi. Á hverjum degi er fjölbreytt dagskrá sem gestum er frjálst að taka þátt í og er áhersla lögð á heilsufræðslu og hreyfingu. Heilsufræðslan er í formi fyrirlestra frá sérfræðingum í heilsu, mataræði og hreyfingu. Á hverjum degi er boðið upp á náttúruskoðun með leiðsögumanni og fá því allir gestir tækifæri á því að kynnast náttúruperlum Reykjanessins vel. Einnig eru sundlaugarnar á svæðinu mikið notaðar og Bláa Lónið er hluti af upplifun gesta. Tveir einkaþjálfarar eru í fullu starfi hjá Heilsuhótelinu sem bjóða upp á hóptíma sem og ráðgjöf fyrir einstaklinga. Mataræðið er stór partur af upplifuninni en aðeins er boðið upp á grænmeti og ávexti. Mikið er um súpur og safa sem og aðra grænmetisrétti. „Við segjum engum hvað viðkomandi á að borða og erum í raun ekki að hvetja fólk til þess að neyta eingöngu ávaxta og grænmetis í sínu daglega lífi. Við lítum frekar á þetta sem hreinsun líkamans og síðan getur fólk fylgt mataræðinu eftir með því að borða allan venjulegan mat þegar dvölinni lýkur. Með þessu trúum við að fólk geti losnað út úr streitu hins daglega amsturs og fólk losnar einnig við líkamlega kvilla um leið og það léttist. Það segir líka eitthvað um starfsemina að ríflega þriðjungur gesta kemur árlega og líður mun betur hjá okkur en t.d. á sólarströnd, “ segir Ragnar Snær.
Eftirfylgni og aðhald á Facebook
Gestir eru ekki skyldugir til þess að taka þátt í skipulagðri dagskrá, fólki er frjálst að gera það sem það vill á meðan á dvöl stendur. „Við höfum verið að fá til okkar m.a. fitnesskeppendur, golfiðkendur og hlaupahópa sem finnst gott að dvelja á hótelinu og fá hollt að borða á meðan þau stunda sínar æfingar.“
Fyrir þá sem kjósa að taka fullan þátt í dagskránni og vilja jafnvel aðhald og eftirfylgni, er í boði fyrir alla að hafa samband við ráðgjafa hótelsins í gegnum tölvupóst eftir að heim er komið. Einnig geta gestir spjallað saman á lokaðri síðu á Facebook sem og við ráðgjafana. „Annað sem við gerum varðandi eftirfylgni er að við mælum með að gestir skrifi sjálfum sér bréf í lok dvalar þar sem þau skrifa um upplifun þeirra á staðnum og skrá hjá sér markmið sem þau vilja setja sér. Síðan geymum við bréfin í þrjá mánuði og sendum þeim svo til þess að minna á dvölina hér og markmiðin sem þau settu sér,“ segir Ragnar Snær.
Vinnustaðir og vinkonuhópar koma í helgarnámskeið
Tveggja vikna námskeiðin eru haldin annan hvern mánuð en þess á milli eru alls kyns helgarnámskeið í boði fyrir fólk sem vill t.d. losna við nikótínfíkn og streitu, bæta heilsuna eða einfaldlega hvílast og njóta. „Við getum í raun skipulagt hverslags námskeið sem snýr að starfseminni hér ef fólk óskar eftir því. Hingað koma hópar eins og danshópar, vinkonuhópar, kærleikshópar og fyrirtæki og fá heilsufræðslu, hreyfingu eða dekur. Ýmsar nuddmeðferðir eru í boði og teljum við okkur vera með eitt öflugasta dekurhótel landsbyggðarinnar.“
Í samstarfi við stéttarfélög og sjónvarpsstöðvar
Heilsuhótelið er í samstarfi við ýmsa aðila sem og stéttarfélög, heilbrigðisstofnanir og meira að segja sjónvarpsstöðvar. HSS hefur samþykkt að vinna með Heilsuhótelinu í málefnum sykursjúkra og er það enn til skoðunar. Að sögn Ragnars kemur mikið af fólki með hjartasjúkdóma, áunna lífstílssjúkdóma sem og sjúkdómseinkenni eins og vefjagigt, streitu, bólgur og þreytu á hótelið. Nýlega var gerður samningur við bóndann í Engi, Laugarási í Biskupstungum og mun Heilsuhótelið kaupa allt grænmeti beint frá honum, allt lífrænt ræktað en norskir gestir gera helst kröfu um að hafa matinn lífrænan. Annar samningur er í vinnslu við stórt stéttarfélag, sjúkrasjóð þar sem karlmenn eru að mestu aðilar að. „Stéttarfélagið mun bjóða sínum félagsmönnum að koma hingað. Einnig erum við með samning við VR og þá gæti fólk valið þessa dvöl umfram sumarhús.“
Eins og áður hefur komið fram í Víkurfréttum mun húsnæði Heilsuhótelsins vera notað í tökur á íslensku útgáfunni af raunveruleikaþættinum Biggest Loser í haust. Hótelið mun einnig veita þáttargerðarmönnum ráðgjöf. Heilsuhótelið mun þó ekki einungis aðstoða Saga Film heldur er norsk sjónvarpsstöð á leið í heimsókn, en Ragnar segir hótelið hafa fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun erlendis. „Fjallað hefur verið um okkur í ýmsum tímaritum og sjónvarpsþáttum, mest í Noregi. Oftast er umfjöllunin mjög jákvæð þó að auðvitað beri á gagnrýnisröddum af og til. Við erum eina Heilsuhótelið á Íslandi en í sumum nágrannalöndum er þjónustan sem við bjóðum upp á, ekki í boði. Þess vegna hefur þetta vakið athygli utan landsteinanna,“ segir Ragnar Snær að lokum.
Gestir Heilsuhótelsins fara í morgungöngu um Ásbrú á hverjum degi.
Matsalur hótelsins er glæsilegur og þar er framreiddur hollur matur þrisvar á dag.