Ofbýður sóðaskapur nágrannans
Sigmar Magnússon, íbúi í Garði hefur fengið nóg af sóðaskap á lóð nágrannans og gagnrýnir aðgerðaleysi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Á lóðinni sem um ræðir úir og grúir af alls kyns drasli, s.s. bílhræjum, járnarusli, timbri og fleira. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
„Ég hef búið hér alla ævi og aldrei séð eins annað eins drasl í nokkrum garði,“ hefur Fréttablaðið eftir Sigmari. Hann gagnrýnir jafnframt Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja fyrir að taka ekki á málinu og gefa viðkomandi lóðareiganda ítrekað frest. „Þetta er með ólíkindum,“ segir Sigmar.
Haft er eftr fulltrúa HES að eiganda lóðarinnar hafi verið gefinn frestur til að hreinsa hana en hann hafi lítið getað gert í vetur vegna snjóa. Eigandinn hafi hins vegar gert góðan skurk í vor. HES muni skoða málið betur á næstu dögum og ákveða næstu skref.
VF-mynd/elg: Á umræddri lóð er hið fjölbreyttasta úrval af alls kyns drasli eins og sjá má.