Ofbeldi einkennir nýársnótt á Suðurnesjum
Talsvert var um útköll hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt og fram eftir morgni. Fimm líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar.
Ein árás var í Vogunum þar sem menn gengu í skrokk á íbúa í blokk, sem endaði með því að manninum var hent fram af svölum. Maðurinn kenndi til í baki og fótum og far fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) til skoðunar. Árásaraðilinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglunnar.
Ungur maður var skallaður á Hafnargötunni í Keflavík um kl. 07:00 og brotnaði í honum tönn við árásina.
Þá var stúlka lamin með glasi í andlitið á skemmtistað í Reykjanesbæ. Stúlkan var flutt á HSS og kom í ljós að hún var nefbrotin og með litla skurði á nefi. Gerandinn handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglunnar og bíður yfirheyrslu.
Tilkynnt var um líkamsárás í Grindavík þar sem maður var lamin í andlitið með steini. Lögreglan kom hinum slasaða á HSS til skoðunar og gerandinn færður í fangahús.
Þá var maður sleginn undir morgun á skemmtistað í Reykjanesbæ. Hann leitaði sér aðhlynningar á HSS og er talinn vera nefbrotinn.
Einn ökumaður var tekinn grunaður um ölvun við akstur undir morgun í Reykjanesbæ.