Of mikill fjöldi fyrir okkar samfélag
– segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri
Ríkið með 1.100 rými fyrir flóttafólk í Reykjanesbæ:
Reykjanesbær er það sveitarfélag sem hlutfallslega tekur á móti flestum flóttamönnum sem koma til Íslands. Tæplega 2.400 manns hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi það sem af er ári. Móttökukerfi flóttamanna er komið að þolmörkum, segir Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr dómsmálaráðherra. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, var gestur Kastljóss á RÚV á mánudagskvöld, ásamt Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði, þar sem þau ræddu málefni flóttafólks.
Kjartan sagði að skipta mætti þessum hópi í tvennt. Annars vegar umsækjendur um alþjóðlega vernd og svo þeir sem hafa fengið alþjóðlega vernd og eru komnir með íslenska kennitölu og orðnir íbúar í Reykjanesbæ. Þeir skipta tugum eða hundruðum. Kjartan sagði að á vegum sveitarfélagsins væru sjötíu manns en íslenska ríkið væri með ellefuhundruð pláss og þau væri langflest í sama hverfiun, á Ásbrú. „Við segjum bara, það er komið nóg. Þetta er eiginlega orðin of mikill fjöldi fyrir okkar samfélag,“ sagði Kjartan í viðtalinu í Kastljósi.
Hann sagði reyna á innviði eins og skóla, almenningssamgöngur og félagsþjónustu. „Við segjum, þetta er fínt. Við höfum verið að axla okkar samfélagslegu ábyrgð í þessu verkefni. Þetta er komið nóg. Við höfum alveg látið ráðherra og þingmenn heyra það. Það er samstaða um þá afstöðu í bæjarstjórn Reykjnesbæjar að þetta sé komið nóg og við þurfum að fá fleiri sveitarfélög að borðinu til að taka þátt í þessu verkefni“.
Reykjanesbær er að sinna 350 manns sem eru komnir með alþjóðlega vernd í gegnum verkefni um samræmda móttöku flóttafólks. Það var samþykkt í bæjarstjórn og það flóttafólk er þegar komið í sveitarfélagið. Hins vegar séu á annað þúsund einstaklinga sem eru ekki komnir með alþjóðlega vernd í sveitarfélaginu og það segir Kjartan vera of mikið.
Auknum fjölda hefur fylgt ákveðin kergja. Stjórnandi Kastljóss vitnaði til þess að kjörnir fulltrúar hafi sagt flóttamenn vera taka íbúðir af heimamönnum og spurði bæjarstjórann hvort hann yrði var við óánægju íbúa. „Já, við finnum vel fyrir því. Ég hef ekki tilfinningu fyrir því hversu stór hópur bæjarbúa er á móti og hversu stór hópur kann að vera með. Hópurinn sem telur að nóg sé komið er háværari. Við heyrum meira í honum heldur en hinum.“
Kjartan sagði einnig í viðtalinu að fjöldinn hafi mikil áhrif á skólakerfið og álag á kennara og starfsfólk skóla sveitarfélagsins væri mikið. Kjartan segir að sveitarfélagið hafi lagt í mikinn kostnað sem það vill að ríkið komi til móts við og greiði.