Of mikil framkvæmdagleði að mati minnihlutans
Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir árið 2013 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 27. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að stefnt er að framkvæmdum fyrir allt að 700 milljónir á næsta ári. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Pálsson, bókaði á fundinum að framkvæmdirnar væru of umfangsmiklar og gagnrýndi of mikla framkvæmdagleði meirihlutans.
„Meirihlutinn sýnir gríðarlega mikla framkvæmdagleði með því að fara í framkvæmdir upp á um 700 milljónir á næsta ári. Öllum hefur verið gert að sæta aðhaldi í rekstri til að ná tökum á fjármálum Grindvíkurbæjar og það hefur tekist með óeigingjörnu vinnuframlagi starfsmanna bæjarins í samvinnu við bæjarstjórn. Þessum árangri er sýnd lítil virðing og stefnt í hættu með áætluðum framkvæmdum sem munu kalla á aukinn rekstrarkostnað upp á tugi milljóna. Það að ráðast í tvær stórar framkvæmdir á sama tíma er mjög vitlaus. Þetta getur leitt til þess að útboð hækki og verkefni færist frekar til aðila utan bæjarfélagsins,“ segir í bókun minnihlutans.
Meirihlutinn svaraði með eftirfarandi bókun: „Bæjarfulltrúar B-, G- og S-lista vilja benda á að þær framkvæmdir sem farið verður í á næsta ári snúa allar að því að búa til betri aðstöðu fyrir starfsfólk bæjarins og samnýta starfsfólkið betur svo hægt sé að veita betri þjónustu til bæjarbúa. Öllum er ljóst að húsnæði þessar stofnana og aðstaða starfsfólks sem þar vinnur er löngu komið til ára sinna. Bæjarfulltrúar B-, G- og S-lista eru sammála því að mikilvægt er að fara í framkvæmdir á tímum sem þessum.
Sveitarfélögum ber skylda til þess að framkvæma þegar niðurskurður er í samfélaginu enda mun ódýrara að framkvæma þá en í góðæri. Einnig er mikilvægt að taka fram að ástæðan fyrir því að miklar framkvæmdir verða á árinu 2013 er vegna þess að framkvæmdir við íþróttahúsið og tónlistarskólann/bókasafnið áttu að hefjast á þessu ári en töfðust.“
Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar var samþykkt með sex atkvæðum en fulltrúi minnihlutans sat hjá.