Óeðlilegt að brjóta reglugerð í sparnaðarskyni
Bæjarfulltrúar B- og D-lista í Sandgerði geta ekki samþykkt tillögu forstöðumanns Íþróttamiðstöðvar um að vera með einn starfsmann á vakt frá kl. 07:00 til kl. 10:00 á virkum dögum í sumar. „Þar sem Umhverfisráðuneyti samþykkir ekki undanþágur er það skoðun okkar að óeðlilegt sé að Sandgerðisbær í sparnaðarskyni brjóti núgildandi reglugerð. Vert er að benda á að reglugerð um sund- og íþróttamannvirki er sett með hagsmuni og öryggi þeirra sem staði sækja að leiðarljósi,“ segir í bókun sem þau Guðmundur Skúlason og Hólmfríður Skarphéðinsdóttir lögðu fram á síðasta bæjarstjórnarfundi í Sandgerði.
Afgreiðsla bæjarráðs um sumaropnun íþróttamiðstöðvar Sandgerðis var samþykkt með 5 atkvæðum S- og H-lista í bæjarstjórn. Fulltrúar B- og D-lista greiða atkvæði á móti.