Oddvitarnir í RNB svara: Gunnar
Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Þegar við rekum heimili þá þurfum við alltaf að hafa tvennt í huga ef að erfiðlega gengur. Við þurfum að lækka útgjöld og auka tekjur, það er algjört skilyrði. Þetta er það sem við leggjum áherslu á í rekstri bæjarins, við viljum lækka skuldirnar svo við höfum meira aflögu fyrir ýmis verkefni. Við viljum auka atvinnuna og efla þar með tekjur bæjarins. Þannig munum við, líkt og heimilin, fá meira í framtíðinni til þess að ráðstafa fyrir ýmis verkefni eins og fyrir barnafjölskyldur og eldri borgara og alls kyns velferðarþjónustu.
Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Staðan er auðvitað alvarleg hjá bæjarfélaginu. Við hyggjumst hagræða í rekstri það er númer eitt. Auk þess þurfum við að auka tekjur bæjarfélagsins það er ljóst. Þar höfum við mörg tækifæri. Við þurfum að forgangsraða verkefnum, þannig að þau verkefni sem eru nauðsynleg verði í forgangi en hin sem eru bara æskileg, bíði betri tíma. Það er eitthvað sem við verðum að huga að. Við verðum að reka ábyrga fjármálastofnun, þannig að reksturinn sé helst með einhverjum afgangi eða alla vega sjálfbær.
Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Við viljum stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi sem skapar vel launuð störf og dregur úr atvinnuleysi. Við viljum einbeita okkur að raunhæfum verkefnum í stað þess að fara út um víðan völl. Við sjáum fyrir okkur álverið, að það komi. Það mun auðvitað skapa vel launuð störf í álverinu sjálfu. Ekki síður störf sem eru afleidd. Ferðaþjónustan er auðvitað vaxtarbroddurinn sem við horfum til. Við verðum að sinna grunnstoðunum í því kerfi og vinna með atvinnulífinu þar, ferðaþjónustunni sjálfri.
Hvað um bæjarstjóramálin?
Við viljum ráða faglegan bæjarstjóra sem hefur þekkingu og reynslu á sviði rekstrar og endurskipulagningu skulda. Hann á ekki að koma úr röðum bæjarfulltrúa. Við þurfum að gera vandaðar og raunverulegar fjárhagsáætlanir sem styðjast við raunveruleikann, í stað þess að vera með óraunhæfar væntingar. Þetta eru auðvitað fjármunir Reykjanesbæjar sem við förum með og við þurfum því að vanda okkur við þetta og eyða ekki um efni fram.
Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Við viljum auka gegnsæi eins og aðrir. Við sjáum fyrir okkur að íbúar hafi kost á því að kynna sér efnin jafnóðum í stað þess að gera það bara á fjögurra ára fresti. Við sjáum líka fyrir okkur að það sé hægt að auka ýmsar kynningar til íbúa, hvað varðar kostnað við verkefni og slíkt. Þá sjáum við líka fyrir okkur grenndarkynningar, þegar um er að ræða nýja íbúðabyggð eða breytingar á skipulagi, að þær geti verið kynntar í gegnum þessa nýju tækni sem við höfum.
Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Við höfum auðvitað verið með vind í seglin. Ég sem smiður veit að það er afskaplega mikilvægt að byggja þannig að grunnurinn sé traustur og innviðir allir. Þetta höfum við frambjóðendur listans haft að leiðarljósi í þessari baráttu. Við viljum treysta grunninn og því verðum við að lækka útgjöld bæjarins, sérstaklega með lækkun skulda og þar með vaxtagjöldin. Við hvetjum auðvitað kjósendur til þess að taka þátt í að skapa þetta heilbrigða samfélag sem við viljum byggja á þannig að reksturinn batni. Með því að kjósa Á-listann Frjálst afl, þá verður þetta að veruleika.