Oddný og Ragnheiður Elín Suðurnesjaþingmenn á næsta Alþingi
„Þetta er sigur jafnaðarmanna og Jóhönnu Sigurðardóttur en hvað mig varðar þá mun ég leggja áherslu á atvinnumálin á alþingi,“ sagði Oddný Guðbjörg Harðardóttir fráfarandi bæjarstjóri í Garði en verðandi þingmaður á næsta Alþingi Íslands í gærkvöldi. Stemmningin í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar í Njarðvík var góð og var mikið fagnað þegar fyrstu tölur komu.
Það var rafmögnuð stemmning á kosningadaginn hér á Suðurnesjum og voru margir á ferðinni og sóttu kosningakaffi flokkana. Þátttaka í kosningunum var betri en síðast og eins og greint hefur verið frá er ljóst að Samfylking og Vinstri grænir munu halda áfram meirihlutasamstarfi í ríkisstjórn. Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðismanna var ekki ánægð með það þegar fréttamenn VF hittu hana á kosningasamkomu Sjálfstæðismanna á Café Duus í gærkvöldi. „Við byrjum upp á nýtt á mánudaginn af krafti. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að koma til baka,“ sagði Ragnheiður sem var þokkalega hress þrátt fyrir slæma útreið flokksins á landsvísu. Flokkurinn tapaði manni í Suðurkjördæmi en Samfylking vann mann og eru flokkarnir nú báðir með þrjá þingmenn. Borgarahreyfingin fékk einn eins og Vinstri græn og Framsókn endaði með tvo. Frjálslyndir þurrkast út en Grétar Mar Jónsson úr Sandgerði var efsti maður á lista flokksins í kjördæminu.
Suðurnesjaþingmenn á næsta alþingi verða þær stöllur, Oddnýr og Ragnheiður sem getur varla talist viðunandi miðað við að Suðurnesin er um 40% af kjördæminu.
Ragnheiður Elín og Sjálfstæðismenn á Cafe Duus í gærkvöld. Á efstu myndinni má sjá Oddnýju á tali við Eystein Eyjólfsson, kosningastjóra Samfylkingarinnar í gærkvöldi.
Sigfús prestur og kona hans Laufey voru mætt til að kjósa eins og þúsundir annarra.