Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Oddný: Með nýju fólki koma nýjir siðir
Laugardagur 31. desember 2011 kl. 10:55

Oddný: Með nýju fólki koma nýjir siðir



Oddný G. Harðardóttir, sem tekur við embætti fjármálaráðherra í dag, sagði þegar hún kom til ríkisráðsfundar á Bessastöðum að markmiðið væri áfram að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu.

Fyrir þá sem ekki þekkja feril Oddnýjar þá er farið yfir feril nýs ráðherra okkar Suðurnesjamanna hér að neðan:

Oddný Harðardóttir er nú þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hún var formaður fjárlaganefndar á árunum 2010 til 2011, og formaður menntamálanefndar frá 2009 til 2010.

Oddný er fimmti þingmaður Suðurkjördæmis, og var áður bæjarstjóri í Garði á Suðurnesjum. Oddný er menntaður kennari og uppeldis- og menntunarfræðingur, og var áður skólameistari Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Þetta er söguleg ríkisstjórnstjórn sem er að myndast, því í fyrsta sinn sitja fleiri konur en karlar í ríkisstjórn hér á landi. Karlarnir eru fjórir, konurnar fimm. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem kona gegnir embætti fjármálaráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í samtali við fréttastofu Rúv sagðist Oddný G. Harðardóttir, gera ráð fyrir því að hún sé að leysa Katrínu Júlíusdóttur af meðan hún er í orlofi. Ekki er enn komið í ljós hvort Katrín verði fjármálaráðherra að fæðingarorlofi loknu eða hvort hún taki við öðru ráðuneyti.

„Þetta kom mér reyndar ánægjulega á óvart, ég fékk bara að vita þetta á þingflokksfundinum að tillagan fæli þetta í sér, að ég tæki fjármálaráðuneytið, þannig að þetta kom mér skemmtilega á óvart.“

Hún segist þó aldrei hafa efast um að taka við embættinu þrátt fyrir að framundan séu skattahækkanir, þessi tími sé ekki erfiðari en annar til að taka við fjármálaráðuneytinu. „Ég held að það sé einmitt tækifæri fyrir jafnaðarmenn að halda á þessu lykilráðuneyti núna, síðasta sprettinn fyrir kosningar.“

Aðspurð hvort hún hyggi á breytingar í ráðuneytinu segist Oddný ekki hafa haft tækifæri til að hugleiða það. „En ég geri ráð fyrir því. Með nýju fólki koma nýir siðir.“