Oddný íhugar framtíð sína
Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra Íslands segist um þessar mundir vera að íhuga framtíð sína í pólitík en hún liggur núna undir feld. Framundan er prófkjör Samfylkingarinnar og hefur Björgvin G. Sigurðsson þegar gefið kost á sér í 1. sæti.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Oddný ætla að gefa sér tíma út vikuna til þess að ákveða sig. „Ég er að fara yfir málin með fjölskyldu minni og verð búin að ákveða framtíð mína áður en vikan er á enda,“ sagði Oddný en að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Síðast sóttist Oddný eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og hlaut þar kosningu. Nú er hins vegar spurning hvort hún ásælist 1. sætið. Hún hefur gengt embætti fjármálaráðherra frá síðustu áramótum en Katrín Júlíusdóttir tekur við því embætti nú 1. október n.k. Þá mun Oddný snúa aftur til hefðbundinna þingstarfa.