Oddný býður sig fram til formanns Samfylkingar
Oddný Harðardóttir þinkona Samfylkingar úr Garðinum hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Oddný hefur verið að íhuga málið að undanförnu en hún greindi frá ákvörðun sinni nú í morgunsárið á Facebook. Áður höfðu Helgi Hjörvar og Magnús Orri Schram lýst því yfir að þeir hygðust taka formannsslaginn.
„Kæru félagar
Ég vil leggja mig alla fram við að bæta íslenskt samfélag. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Samfylkingarinnar.
Verkefni okkar er að styrkja stöðu ungs fólks, barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja. Ójöfnuð sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu þarf að stöðva strax. Til þess þarf samstillt átak jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar.
Ég vil vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis, að sett verði ný stjórnarskrá, að arðurinn af auðlindum skili sér til okkar allra og lífvænlegu umhverfi til komandi kynslóða. Til þess þarf sterka Samfylkingu.
Þegar baráttumálin snúast um jafnrétti og réttlæti er auðvelt að stækka hópinn og fá hugsjónaeldinn til að brenna í hjörtum jafnaðarmanna.
Ég óska eftir stuðningi þínum og samstarfi.
Með baráttukveðjum,
Oddný G. Harðardóttir“