Ódæðismaðurinn á Litla-Hraun
Það er óhætt að segja að íbúar í Reykjanesbæ séu harmi slegnir í kjölfar hörmulegs atburðar þegar tuttugu og eins árs gamall Keflvíkingur, Rúnar B. Ríkharðsson, myrti Áslaugu Óladóttur 19 ára gamla stúlku úr Njarðvík aðfaranótt sl. laugardags. Pilturinn játaði verknaðinn síðar þann dag og var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. júní.Pilturinn ruddist inn í íbúðina og réðst á Áslaugu sem lá sofandi í rúmi sínu um hálf fimmleytið um morguninn. Sambýlismaður hennar var einnig sofandi annars staðar í íbúðinni og vaknaði við átökin. Árásarmaðurinn veittist einnig að honum og særði hann og lagði svo á flótta. Annar ungur maður sem er vitni í málinu er ekki talinn eiga neinn hlut að þessu voðaverki. Íbúi á efri hæðinni braust í gegnum hurð milli íbúðanna í húsinu til að komast inn á neðri hæðina eftir að hann hafði vaknað við átökin. Hann hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti um árásina.Unga parið var nýflutt í íbúðina. Orðrómur um að gleðskapur hafi verið í íbúðinni er ekki réttur. Þau höfðu skroppið í stutta stund fyrr um kvöldið á skemmtistað en fóru heim um klukkan tvö.Lögreglan fann stóran dúkahníf nálægt vettvangi og taldi í byrjun að það væri morðvopnið en síðar kom í ljós að ódæðismaðurinn notaði sjálfskeiðung, sem er hnífur með12-14 sm. blaði, við verknaðinn, en hann fannst í nágrenninu. Þykir ljóst að hann hafi hent hnífnum þegar hann lagði á flótta eftir verknaðinn. Eftir árásina fór hann m.a. í fjölbýlishús við Heiðarholt í Keflavík en fór síðan á sjúkrahús til að láta gera að eigin sárum.Rúnar hafði að undanförnu ítrekað hótað stúlkunni og vinkonum hennar á gróflegan hátt, meðal annars með SMS skilaboðum í síma. Það hafði hann gert í hefndarhug þar sem stúlkurnar höfðu vitnað gegn honum eftir að hann hafði nauðgað einni stúlkunni. Þann atburð tók hann sjálfur upp á myndband en lögreglan fékk það í sínar hendur og beið hans dómur í því máli áður en þessi atburður gerðist. Rúnar neitaði að hafa sent skilaboðin í yfirheyrslum. Lögreglan í Keflavík hafði vitneskju um hótanir hans en Þórir Maronsson, yfirlögregluþjónn, segir kerfið þannig að erfitt sé að setja menn í varðhald fyrir slíkt. Áslaug var meðal þeirra sem veittu lögregluni upplýsingar í nauðgunarmálinu.Lögreglan leitar nú vitnis sem sást á tali við ódæðismanninn á Ránni aðfaranótt á föstudagskvöldið og talið er geta varpað skýrara ljósi á aðdraganda glæpsins. Lýst er eftir manni á aldrinum 30-35 ára, frekar háum vexti, ljóshærðum með lítið hár og gleraugu. Einnig sást til Rúnars á tali við Áslaugu umrætt kvöld og er talið að hann hafi haft hnífinn á sér á staðnum.Áslaug Óladóttir og lettneskur unnusti hennar höfðu verið að standsetja íbúð þeirra við Skólaveg 2 í Keflavík og voru nýlega flutt þar inn. Rúnar Bjarki Ríkharðsson hefur verið fluttur úr fangageymslum lögreglunnar í Keflavík austur á Litla-Hraun, þar sem hann mun dveljast á meðan gæsluvarðhaldsvist hans stendur.Meðfylgjandi er ljósmynd af Áslaugu Óladóttur