Óbreytt þjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja tryggð
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hefur fallist á tillögur samráðshóps um málefni HSS en hópinn skipaði Ögmundur nýverið. Tillögur hópsins tryggja að nærþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnejsa verði áfram sú sama sem verið hefur; bráðamóttaka á skurðstofu, þjónusta við fæðandi konur og umönnun aldraðara verður óbreytt svo eitthvað sé nefnt. Samhliða þessu næst fram sparnaður í rekstri HSS um rúmlega 130 milljónir króna og óvissu um rekstur stofnunarinnar hefur því verið eytt.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem samráðshópurinn sendi frá sér í í gær.
Í henni segir ennfremur að raunverulegur sparnaður náist án þess að dregið sé úr þjónustu og án þess að segja þurfi upp starfmönnum. Fyrst og fremst beri að þakka starfsfólki HSS sem taki á sig mikla launalækkun auk aukins álags við vinnu. „Óhætt er að segja að framlag starfsmanna hafi riðið baggamuninn og orðið þess valdandi að það tókst að mæta óskum ráðherra um sparnað, sparnaðarkröfum sem beinast að öllum heilbrigðisstofnunum,“ segir í tilkynningu samráðshópsins.
„Ekki hefði verið unnt að ná þessum árangri án frumkvæðis Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra en hann ákvað að fara aðrar leiðir en áður hafa verið farnar sem byggðu á samráði við nærsamfélagið og starfsmenn með því að skipa hollvini HSS í samráðshóp,“ segir að lokum í fréttatilkynningu samráðshópsins.
---
VFmynd/pket - Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, á fundi með starfsfólki HSS.