Óboðinn gestur í stofusófanum

Óboðinn, ölvaður gestur heimsótti heimili í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gærkvöld og hreiðraði um sig í sófa í stofunni. 
 
Húsráðandi var á efri hæð að horfa á sjónvarp þegar hann heyrði umgang á neðri hæðinni. Taldi hann í fyrstu að þar væru heimilisvinir á ferðinni en ákvað svo að athuga málið nánar og fór niður á neðri hæð.  Þar sat hinn óboðni í stofusófanum og lét fara vel um sig.

Erfiðlega gekk að ræða við hann sakir tungumálaörðugleika en lögreglumenn fjarlægðu hann svo og fluttu á lögreglustöð þar sem hann fékk gistingu að eigin ósk.