Óásættanlegt að hagsmunir Suðurnesja verði ekki metnir
Oddný Harðardóttir fer fyrir hópi þingmanna sem vill fela innanríkisráðherra að láta kanna kosti þess að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Einnig verði lagt mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri Keflavíkurflugvallar með tilliti til þróunarmöguleika flugvallarins og áhrifa á íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurnesjum. Ætlast er til að ráðherra skili skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar nú á vorþingi 2016.
Rögnunefnd lagði mat á flugvallarsvæði fyrir innanlandsflug þar sem Hvassahraun var fremsti möguleiki, einkum vegna þróunarmöguleika þess svæðis. Að mati Oddnýjar þýðir það að góðir möguleikar séu til stækkunar í Hvassahrauni og því möguleiki á að færa allt millilandaflug þangað. „Þetta er lagt til án þess að Keflavíkurflugvöllur hafi verið metinn með sama hætti. Það finnst mér óásættanlegt,“ segir Oddný. Hún telur mikla hagsmuni undir fyrir Suðurnesjamenn í þessu máli. „Mér virðist sem menn vilji meta hagsmuni landsbyggðarinnar og borgarbúa ef færa á innanlandsflug úr Vatnsmýrinni. Ég get ekki sætt mig við að hagsmunir okkar Suðurnesjamanna verði ekki metnir í þessu samhengi og því legg ég þingsályktunartillöguna fram.“
Oddný segir afar mikilvægt að Suðurnesjafólk verði tilbúið til andófs ef það sé raunverulega ætlunin að flytja millilandaflug í Hvassahraun sem sé aðeins í 20 mínútna akstursleið frá alþjóðaflugvellinum. Atvinna og hagur Suðurnesja er undir að hennar mati. Aðrir flutningsmenn eru ásamt Oddnýju: Páll Valur Björnsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall, Páll Jóhann Pálsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.