Óásættanlegt að fólk sé ósátt
Nýr forstjóri HSS vill að Suðurnesjamenn geti verið stoltir af stofnuninni
Halldór Jónsson var ráðinn forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til næstu fimm ára í byrjun júlí. Halldór er viðskiptafræðingur að mennt en lungann af sinni starfsævi hefur hann starfað við Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann gegndi fyrst stöðu skrifstofustjóra, síðar framkvæmdastjóra og lengst af stöðu forstjóra, að undanskildum árunum 1990-1994 þegar hann var bæjarstjóri á Akureyri. Halldór er Akureyringur í húð og hár en honum líkar lífið vel á Suðurnesjum. Hann telur mikilvægt að forstöðumaður stofnunar eins og HSS sé í tengingu við samfélagið og hafi tilfinningu fyrir því sem hér er að gerast og vegna þess hyggst hann flytja búferlum á svæðið. Halldór hitti Eyþór Sæmundsson blaðamann Víkurfrétta á dögunum þar sem máefni HSS voru rædd.
Halldór segir hvimleitt að stofnunin virðist hafa nokkuð neikvæða ímynd á Suðurnesjum og úr því vill hann ólmur bæta. Hann hefur ákveðnar hugmyndir hvernig því skuli hagað en þar spilar heildarskipulag heilbrigðiskerfisins á Íslandi öllu stóra rullu. Halldór vonast til að upplifun Suðurnesjamanna af þjónustu stofnunarinnar geti breyst.
Góð þjónusta með góðu aðgengi
Halldór segist þegar hafa heyrt í eða hitt alla bæjarstjóra á Suðurnesjum og jafnframt segist hann hafa fengið góðar móttökur frá starfsfólki jafnt sem íbúum. Hann segir mikilvægt að sveitarfélögin láti sig stofnunina varða. Einnig sé mikilvægt að góð samstaða sé með sveitarfélögum á svæðinu um stofnunina hvað varðar áherslur og uppbyggingu. „Skipulag heilbrigðismála á að vera að mestu óháð flokkspólítík. Ég tel að flestir séu sammála um þær meginlínur sem eigi að gilda vaðandi heilbrigðismál. Fólk vill góða þjónustu með góðu aðgengi fyrst og fremst,“ segir Halldór.
HSS, ásamt Hrafnistu, sóttist eftir því fyrir skömmu að gerast rekstraraðili hjúkrunarheimilanna Hlévangs og Nesvalla. Allt útlit er fyrir því að Hrafnista muni annast reksturinn en Halldór segir HSS hæglega ráða við rekstur hjúkrunarrýma aldraðra.
„Ég hef engar athugasemdir varðandi Hrafnistu. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim og þeirra starfsemi, en reynsla þeirra er mikil í umönnun aldraðra,“ segir Halldór. Hann efast þó ekki um að HSS hafi fulla burði til þess að annast slíkan rekstur. „Hér er stofnun til staðar sem hefur farið í gegnum miklar sveiflur á undanförnum áratugum. Margt á rætur að rekja til breytinga sem orðið hafa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við verðum að horfa á stöðuna í dag og takast á við hana. Hvað er það sem við getum best gert fyrir samfélagið hér?“
Halldór segir þjónustu við aldraða vera mikilvæga en hún sé hluti af grunnþjónustu heilbrigðismála. „Hin eiginlegu dvalarheimili eru nánast að leggjast af. Þetta eru að verða hjúkrunarheimili.“
Halldór telur að fresta megi því að fólk þurfi að flytjast á hjúkrunarheimili með því að bjóða upp á hvíldarinnlagnaþjónustu. Þar fengju aldraðir þjálfun, endurhæfingu og færnieflingu. „Sumir segja að ekki sé mikil eftirspurn eftir því en það er kannski vegna þess að margir átta sig ekki á því hvað þetta gerir mikið gagn. Þetta, ásamt öflugri heimaþjónustu og góðum hjúkrunarheimilum, ætti að tryggja góða þjónustu við aldraða, sem eiga allt gott skilið. Við megum ekki gleyma gamla fólkinu, öll verðum við jú gömul einhvern tímann.“
Nálægðin við Reykjavík hefur bæði kosti og galla
Varðandi sérfræðiþjónustu þá segir Halldór að þó svo að sérfræðingar séu ekki á HSS öllum stundum þá geti þeir hæglega komið hingað og tekið skoðanir og viðtöl, annast það sem minna er í smíðum. Stærri hlutir eigi svo að vera afgreiddir á stærri stofnunum að mati Halldórs. Sérhæfing er að verða meiri og hún er að mati Halldórs að færast á færri staði. Nálægðin við Reykjavík hafi þó bæði sína kosti og galla. Verkefni okkar Suðurnesjamanna sé að nýta okkur kostina til hins ítrasta. Mikið öruggi sé að hafa sterkt bakland í seilingarfjarlægð.
Umdeildar skurðstofur hjá HSS hafa ekki verið mikið notaðar og eins og staðan er í dag þá eru þær ekki í notkun. Eins hefur verið fjallað um fæðingardeild HSS þar sem áhættufæðingar hafa verið hugarangur íbúa á svæðinu. „Mikið hefur verið gert úr þeim ákvörðunum sem teknar voru áður. Þar nefni ég sem dæmi skurðstofur sem lítið var notast við. Ég hef lítið kynnt mér hvort sú ákvörðun hafi verið rétt eða röng á sínum tíma, mér finnst það ekki skipta máli í dag. Þróunin hefur verið sú að viðameiri skurðstofustarfsemi færist á færri staði. Það þarf að meta hvar eigi að byggja upp slíka þjónustu og hvar eigi að kaupa hana annars staðar frá,“ segir Halldór. Rekstur skurðstofu kalli á mjög sérhæft starfsfólk, sem oft sé erfitt eða ekki mögulegt að fá til starfa. Þar sem skurðstofuþjónusta sé ekki til staðar allan sólarhringinn hafi það mikil áhrif á fæðingarþjónustu. Þar sem skurðlæknir og svæfingarlæknir eru ekki til staðar verður fæðingarþjónustan allt önnur.
Grunnþjónusta í sátt við samfélagið
Halldór segist hafa heyrt af því að sett hafi verið út á þjónustu HSS.„Það er óásættanlegt að fólk sé ósátt við þjónustu svona stofnunar. Það verða alltaf skiptar skoðanir. Sumar athugasemdir eru fullgildar en aðrar minna gildar. Við eigum að bregðast við ábendingum og athugasemdum íbúanna og gera okkar til að bæta þjónustuna. Ef fólk kemur ekki til okkar með skoðanir sínar þá getum við ekki brugðist við.“
Halldór er á því að þetta sé verk sem þurfi að vinna til langs tíma litið. Hann ætlar að gera sitt til þess að breyta því sem þarf og hann telur afar mikilvægt að grunnþjónusta sem þessi sé í sátt við samfélagið. „Fólk verður líka að skilja að við ráðum ekki öllum þessum hlutum. Margar ákvarðanir eru teknar annars staðar sem við þurfum svo að framkvæma. Við erum ekki endilega þessi „vondi“. Við verðum þó að koma ákvörðunum til skila og gera upplifun þeirra sem hingað sækja þjónustu jákvæða.“
„Við eigum ekki að eyða orkunni í eitthvað sem ekki er raunhæft að gera.“
Halldóri er mikið í mun að stofnunin geti veitt góða heilbrigðisþjónustu. Hann segir að nú þegar geri stofnunin það. Alltaf megi þó laga og bæta. „Kannski hefur ekki verið hlustað nóg eða brugðist við. Þannig vil ég ekki að hlutirnir séu og þannig verða þeir ekki. Ég vil að þessi stofnun sé í sátt og samvinnu við samfélagið. Þannig að fólk geti verið stolt af henni.“
Halldór segir að ekki megi gera óraunhæfar kröfur til HSS. Hann segir heilsugæslu á Íslandi vera á margan hátt í kröggum. Telur Halldór að HSS sé betur sett en margar aðrar stofnanir hvað varðar t.d. læknamönnun. Víða sé skortur á læknum. „Það er erfitt að viðhalda óbreyttri og góðri þjónustu þegar hagræðingar – og sparnaðarkröfur eru settar fram ár eftir ár. Kröfur um þjónustu eru þó ekki að minnka. Ég tel mikilvægt að heildarskipulag heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi sé markvissara. Þannig að fyrir liggi hvaða þjónustu skuli veita á hverjum stað eða svæði. Það þarf að vera heildarrammi sem farið er eftir,“ segir Halldór en hann er fylgismaður markvissrar stefnumótunar sem mætti vera sterkari að hans mati.
Öflug bráðaþjónusta sé fyrir hendi
Að mati Halldórs, þá eiga ýmis atvik ekki erindi inn á stærstu sjúkrahúsin nema þau séu bráð, eða jafnvel lífshótandi. Minni sjúkrastofnanir/heilbrigðisstofnanir þurfi að geta sinnt slíkum viðfangsefnum. Halldór telur mikilvægt að HSS bjóði upp á öfluga bráðaþjónustu þar sem möguleiki sé fyrir hendi að leggja inn sjúklinga. Hann telur hins vegar eðlilegt að flóknustu og erfiðustu tilvikin séu flutt á Landspítala. „Í þessu 22.000 manna samfélagi þá er eðlilegt að öflug bráðaþjónusta sé til staðar. Við eigum ekki bara að vera móttökuaðili sem sendir sjúklingana áfram á annað sjúkrahús. Það þarf að vera samkomulag um hvaða þjónustu sé eðlilegt að byggja upp á hverjum stað. Að mínu mati getur það ekki verið ákvörðunaratriði hvers og eins algjörlega. Auðvitað er hægt að hafa sérstakar óskir en þetta þarf allt að passa í heildarmyndina.“
Halldór segist þakklátur fyrir þær móttökur sem hann hefur hlotið hér á Suðurnesjum. Hann hlakkar til þess að takast á við starfið og vonast til þess að geta gert samfélaginu gagn. Honum er ofarlega í huga að stofnunin geti orðið íbúum á svæðinu til góðs og þeir geti verið stoltir af henni. „Það er jákvætt að fá viðbrögð frá íbúum hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð. Það viljum við nota til þess að bæta þjónustuna okkar.“
Hefur áhyggjur af því að ná ekki endum saman
Þegar talið berst að rekstri sjúkrahússins þá segir Halldór að vissulega sé reksturinn erfiður. „Það er deginum ljósara. Það er ekki auðvelt að ná endum saman og ég hef vissulega nokkrar áhyggjur af því. Það verða mörg nálaraugu sem þarf að horfa í gegnum varðandi ýmislegt í rekstrinum.“ Halldór segir að þær fjárveitingar sem stofnunin fái verði eðlilega að duga fyrir rekstri hennar. Það séu þó aðrir sem ákveði umfang fjárveitinganna og því verði einfaldlega að sníða stakk eftir vexti. „Við verðum að tala fyrir því sem betur mætti fara og reyna að hafa áhrif á fjárveitingar til HSS á næsta og næstu árum,“ segir Halldór að lokum.